Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hyggja á áætlunarflug milli Kína og Íslands

27.11.2019 - 06:33
Erlent · Innlent · Asía · Kína · Samgöngumál
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons
Kínverska flugfélagið Juneyao Air hyggst hefja áætlunarflug milli Sjanghæ og Keflavíkur, með millilendingu í Helsinki. Fréttablaðið greinir frá. Xu Xiang, forstöðumaður flugfélagsins á Norðurlöndum, staðfestir í samtali við blaðamann að stefnt sé að því að fyrsta flugferðin verði farin í lok mars. Ætlunin er að fljúga tvisvar í viku árið um kring og er áætlað verð á miðum báðar leiðir frá 68.000 krónum.

Xu segist vilja auka umsvif félagsins á Norðurlöndum. Um 100.000 kínverskir ferðamenn komi hingað til lands á ári hverju og hann ráðgeri að ná um 20.000 þeirra til Juneyao Air. Flogið verður með Boeing 787 Dreamliner-breiðþotum. Xu Dewei, verðandi yfirmaður flugfélagsins hér á landi, segist vonast til þess að Íslendingar notfæri sér þessar fyrstu, beinu flugferðir milli Kína og Íslands, ekki síður en Kínverjar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV