Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvítur, hvítur dagur til Cannes

Stilla úr kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur.
 Mynd: Hlynur Pálmason

Hvítur, hvítur dagur til Cannes

22.04.2019 - 10:11

Höfundar

Hvítur, hvítur dagur, nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmasonar, hefur verið valin til þátttöku á Critics' Week, einni af hliðardagskrám kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þar sem hún verður jafnframt heimsfrumsýnd. Critics' Week fer fram 15.-23. maí næstkomandi.

Hvítur, hvítur dagur segir frá lögreglustjóranum Ingimundi sem fer í starfsleyfi eftir að eiginkona hans lætur óvænt lífið af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og barnabarn, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu hans. Fljótlega verður grunur Ingimundar að þráhyggju sem leiðir hann til róttækra gjörða. Ingvar E. Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni.

Hvítur, hvítur dagur er önnur kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd en hann leikstýrði áður Vetrarbræðum sem kom út árið 2017.  

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa áður tekið þátt í Critics' Week á Cannes. Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson tók þátt í fyrra og Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen tók þátt árið 1992. Þá hafa tvær kvikmyndir með íslenska tengingu tekið þátt, hin norsk/íslenska Vandræðamaðurinn eftir Jens Lien árið 2006 og fransk/íslenska stuttmyndin Víkingar eftir Magli Magistry árið 2013. 

Hlynur Pálmason leikstjóri.
 Mynd: Hildur Ýr Ómarsdóttir