Hvítá flæðir yfir veginn að tveimur bæjum

25.01.2020 - 16:45
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Klakastífla veldur því að Hvítá flæðir yfir bakka sína milli bæjanna Brúnastaða og Austurkots, og ekki er fólksbílafært til Austurkots, segir Frímann Birgir Baldursson varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. Vatn flæðir einnig yfir veginn að Oddgeirshólum en íbúar þar komast aðra leið þaðan.

Frímann segir að lögregla hafi rætt við bændur bæði í gær og í morgun. Bændur hafi ekki miklar áhyggjur af þessu. „Aðeins áhyggjur af girðingum hjá sér en ekki mannvirkjum og telja eins og staðan er núna að það stafi ekki hætta af þessu. En ef vatnavextir aukast eitthvað þá er kannski möguleiki að svo verði,“ segir Frímann í viðtali við Ingvar Þór Björnsson. Eggert Jónsson tökumaður tók myndefnið sem fylgir fréttinni. 

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

„Veðurstofan fylgist með þessu ásamt okkur og við munum fara þarna seinna í dag og skoða aðstæður, hvort það hafi orðið eitthvað meira,“ segir Frímann.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV