Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvískur og öskur í Listasafni Íslands

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Hvískur og öskur í Listasafni Íslands

13.05.2018 - 14:43

Höfundar

„Það sem sýningin í rauninni snýst um er að velta því fyrir sér afhverju fólk velur sér þennan miðil. Og það var spurning sem við sendum til allra listamannanna og fengum mismunandi svör við,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar Ýmissa kvikinda líki - íslensk grafík í Listasafni Íslands.

Á sýningunni má sjá yfir 100 þrykk og fjölfeldi eftir 27 listamenn, unnin með margs konar tækni, allt frá klassískum grafíkmiðlum eins og ætingu og silkiþrykki, til innsetningar sem gerð er með einþrykki og þrívíðu prenti. Ingibjörg Jóhannsdóttir er sýningarstjóri sýningarinnar ásamt bandaríska listfræðingnum Pari Stave.

Fjölbreyttur hópur fólks á verk á sýningunni, þekktir myndlistarmenn á borð við Söru Riel, Dieter Roth, Arnar Herbertsson, Rúrí, Sigurð Guðmundsson og Hrafnhildi Arnardóttur en auk þess eiga þar listamenn verk sem eru þekktari fyrir að skapa í aðra miðla, eins og Megas, Björk Guðmundsdóttir og Hallgrímur Helgason.

Þrír listamenn vinna verk sérstaklega fyrir sýninguna, Hrafnkell Sigurðsson og þeir Leifur Ýmir Eyjólfsson og Sigurður Atli Sigurðsson sem munu skapa innsetningu í formi verkstæðis þar sem grafíkverk verða framleidd og seld.

„Mér finnst það birtast sérlega skýrt hjá Hrafnkeli Sigurðarsyni, afhverju fólk velur þennan miðil, og líka hjá Richard Serra,“ segir Ingibjörg. „Þegar Serra vann verkin í Viðey, þá vann hann jafnhliða grafíkverk. Svo fór hann að vinna með verkstæði í Bandaríkjunum og þróaði þar nýja aðferð við að gera grafíkverk, sem er svo líkamleg að manni finnst maður næstum verða undir henni þegar maður stendur fyrir framan hana. Það er svo merkilegt að sjá hvað það er mikil breidd í möguleikum þessa miðils og mér finnst það sjást mjög vel hérna. Hér sér maður allan skalann, frá því að vera hvískur Hrafnkels og yfir í að vera djúpt öskur sem maður er hálfhræddur við.“

Rætt var við Ingibjörgu Jóhannsdóttur í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Sýningin Ýmissa kvikinda líki íslensk grafík opnar í dag og stendur yfir til 23.09.2018