Forsetinn hélt ræðu í tilefni af því að fjörutíu ár eru liðin frá því að Kínverjar sendu Taívönum skilaboð um að sameinast og láta af hernaðarátökum. Hann sagði þetta innanríkismál Kínverja, sameining væri eina rétta leiðin og sjálfstæðisbarátta Taívana væri ekki til neins. Tsai Ing-wen, forseti Taívans, brást við ræðu kollega síns á blaðamannafundi í dag. Hún segir að Kínverjar þurfi að bera virðingu fyrir staðfestu þeirra 23 milljóna sem búa í Taívan og vilji frið og lýðræði.
Muni frekar nýta sér netið
Áratugum saman hafa ráðamenn í Kína og Taívan skipst á fjandsamlegum skilaboðum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem beitingu hervalds er hótað. Stjórnmálaskýrendur eystra telja meiri líkur á því að Kínverjar nýti sér netið til þess að ná yfirráðum í Taívan, til dæmis með því að hafa áhrif á kosningar. Kínverjar hafa lengi lagt til lausn sem þeir kalla eitt ríki, tvö kerfi. Stjórnvöld í Taívan hafa ítrekað hafnað þessu, nú síðast í dag. Stjórnvöld í Kína líta á Taívan sem hérað, sem sé enn hluti af Kína. Taívanar hafa haft sjálfstjórn í sjötíu ár, líta á sig sem fullvalda ríki, en hafa þó enn ekki formlega lýst yfir sjálfstæði.