Hvetja til frestunar úrslita í Kongó

18.01.2019 - 08:34
Mynd með færslu
Starfsmenn kjörstjórnar í Kinshasa telja atkvæði í óðaönn. Mynd:
Afríkusambandið hvetur stjórnvöld í Austur-Kongó til að fresta útgáfu lokaniðurstaðna í forsetakosningunum í þar í landi. Ráðgert er að kynna lokaúrslitin formlega í dag. Felix Tshisekedi hefur þegar lýst yfir sigri í kosningunum.

Hjá Afríkusambandinu eru miklar efasemdir um að bráðabirgðaúrslitin sem þegar hafa verið kynnt séu rétt. Hlutverk sambandsins er að stuðla að samstöðu og lýðræði í Afríku. Bráðabirgðaniðurstöður segja Tshisekedi hafa fengið flest atkvæði en að Martin Fayulu, sem talinn var sigurstranglegastur fyrir kosningarnar, segist hafa unnið. Hann hefur kært kosningaúrslitin.

Fayulu hefur haldið því fram að brögð hafi verið í tafli og átt hafi verið við niðurstöður kosninganna. Hann segist telja að Tshisekedi ætli að deila völdum með Joseph Kabila, fráfarandi forseta. Kabila hefur verið forseti í Austur-Kongó í 18 ár.

Þjóðarleiðtogar aðildarríkja Afríkusambandsins funduðu í Addis Ababa í Eþjópíu í gær. Í yfirlýsingu leiðtoganna sem kynnt var eftir fundinn er það lagt til að kynningu lokaniðurstöðu verði frestað vegna alvarlegra efasemda um gildi niðurstaðnanna. Þar er á það bent að eftirlitsaðilar sem fylgdust með kosningunum hafi gert athugasemdir við framkvæmd kosninganna.

Ef kosningaúrslitin verða viðurkennd munu fyrstu friðsælu valdaskiptin eiga sér stað í Austur-Kongó síðan landið öðlaðist sjálfstæði frá Belgíu árið 1960.

Stjórnvöld í Kongó ætla að taka ákvörðun í dag um hvort úrslitin verða staðfest eða ekki. Á vef breska ríkisútvarpsins BBC eru þrjár niðurstöður líklegar. Stjórnvöld gætu látið kæru Fayulu niður falla, staðfest úrslitin og lýst Felix Tshisekedi sigurvegara kosninganna. Þau gætu fyrirskipað endurtalningu atkvæða, eins og Fayulu hefur farið fram á, og kynnt öðruvísi úrslit kosninganna. Og að síðustu þá gætu stjórnvöld í Austur-Kongó ógilt kosninguna og efnt til nýrra forsetakosninga.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi