Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvetja Arion banka og Thorsil til að hætta við

22.01.2019 - 23:06
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fulltrúi Miðflokksins vilja að Arion banki og Thorsil falli frá áformum sínum um rekstur kísilverksmiðja í Helguvík. Greint er frá þessu á vef Víkurfrétta.

Bæjarfulltrúar flokkanna í meirihluta, það er Samfylkingarinnar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks, auk fulltrúa Miðflokksins lögðu fram yfirlýsingu á bæjarstjórnarfundi í dag og hvetja Arion banka og Thorsil til að taka frekar þátt í annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið. Bæjarfulltrúarnir segjast taka fyllilega undir áhyggjur íbúa og telja að nú sé ljóst að starfsemi af þessu tagi henti ekki í nálægð við þétta íbúabyggð, að því er segir í frétt Víkurfrétta

Stakksberg, fyrirtæki í eigu Arion banka, heldur utan um rekstur kísilverksmiðjunnar sem áður var kennd við United Silicon. Fyrirtækið hefur lýst því yfir að það ætli að koma henni í samt lag og selja hana svo. Thorsil, aftur á móti, áætlar að byggja kísilverksmiðju í Helguvík, í næsta nágrenni við hina. Á þeim tíma er starfsemi var í verksmiðju United Silicon, frá 2016 til 2017 lagði mikla mengun þaðan og lét Umhverfisstofnun stöðva starfsemina. Fjöldi íbúa lýsti vanlíðan vegna mengunar. 

Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, eru á öðru máli en meirihlutinn. Þeir lögðu fram bókun í dag þar sem lögð er áhersla á að mistökin sem gerð voru hjá United Silicon verði ekki endurtekin. Mikilvægt sé að hafa fjölbreytt atvinnulíf. Erfitt hafi verið þegar rúmlega þúsund manns misstu atvinnu sína við brotthvarf bandaríska hersins árið 2006. Tveimur árum síðar í bankahruninu hafi svo fjöldinn allur af fólki misst sína vinnu. D-listinn hvetur fyrirtækin tvö til samráðs við íbúa um framvindu mála til að uppbygging í Helguvík verði í sátt við þá og umhverfið.

Frjálst afl segir í bókun sinni að nota verði bestu mengunarvarnir og vanda til verka. Þá þurfi að grípa til mótvægisaðgerða þar sem ljóst sé að kolefnisspor verksmiðjunnar verði verulegt.