Hverskonar eitur er Roundup?

Mynd með færslu
 Mynd:

Hverskonar eitur er Roundup?

19.06.2014 - 15:04
Stefán Gíslason fjallar í dag um eiturefnið Roundup og notkun þess. Pistilinn má líka lesa hér að neðan.


Í fréttum RÚV fyrr í vikunni kom fram að Vegagerðin notaði enn Roundup til að eyða gróðri í vegköntum á Mýrdalssandi og af umræðum á samfélagsmiðlum má ráða að svipuð ummerki hafi sést í vegköntum víðar um land. Í frétt RÚV var einnig haft eftir deildarstjóra umhverfis- og öryggismála hjá Vegagerðinni að því hefði verið beint til yfirmanna þjónustustöðva að nota eins lítið af Roundup og hægt væri. Eitrinu væri sprautað á lúpinu, skógarkerfil og hátt gras sem skyggði á vegstikur eða safnaði snjó og að því miður hefði Vegagerðin enga aðra leið til að eyða þessum gróðri en að slá eða eitra, eins og það var orðað í fréttinni.

 Ég lít ekki á það sem hlutverk pistlahöfunda í útvarpi að kveða upp dóma um það hvort verjandi sé að nota Roundup í vegkanta, nema þá að þeir hafi étið nógu mikið af skilningstré góðs og ills. Hins vegar er eðlilegt að pistlahöfundar og allur almenningur velti því fyrir sér hvers konar efni þetta sé og hvort það geri ekkert annað en að drepa nákvæmlega þann gróður sem því er ætlað að drepa.

 Ef við byrjum á síðarnefnda atriðinu, þá er því fljótsvarað að enn hefur ekki frést af neinu eitri sem drepur bara það sem það á að drepa. Reyndar getur eitur verið býsna sértækt, en það er Roundup alls ekki. Þvert á móti er þarna um að ræða breiðvirkan illgresiseyði, sem gerir lítinn greinarmun á illgresi og öðrum plöntum, enda fer skilgreiningin á illgresi alfarið eftir því hvaða plöntur eru þóknanlegar þeim sem talar. Þarna gildir það sama og um aðra illgresiseyða, að illgresiseyðir er í raun alveg ómögulegt orð. Þetta er einfaldlega plöntueitur sem drepur flestar þær plöntur sem fyrir því verða, sérstaklega blaðmiklar plöntur, grös og því um líkt. Plöntur sem verða fyrir barðinu á eitrinu hætta að vaxa, missa græna litinn, blöðin krumpast og plönturnar drepast yfirleitt á nokkrum dögum.

 Orðið Roundup hefur út af fyrir sig enga efnafræðilega merkingu, heldur er þetta bara vöruheiti sem efnarisinn Monsanto notar fyrir þessa framleiðsluvöru sína. Efnið gengur undir ýmsum öðrum nöfnum hjá öðrum framleiðendum, en það sem máli skiptir í því sambandi er virka efnið í eitrinu. Þetta efni nefnist glýfosat eða N-(fosfónómetýl)glýsín og var upphaflega uppgötvað árið 1970 af efnafræðingi sem þá vann hjá Monsanto. Efnið varð fljótlega mjög vinsælt, ef svo má að orði komast, og er nú mest notaða plöntueitur í heimi.

 Þegar ég var í skóla í Svíþjóð fyrir 16 árum síðan var Roundup töluvert í umræðunni þar. Efnið var þá notað af sænsku járnbrautunum til að þess að eyða gróðri á milli járnbrautarteina, en um svipað leyti höfðu borist fregnir af því frá Danmörku að þar hefði efnið fundist í grunnvatni á eins til fimm metra dýpi, jafnvel þó að það ætti ekki að geta borist lengra en svo sem 15 cm niður í jarðveginn. Það að efnið finnist í grunnvatni kann reyndar að vera allt í lagi, þ.e.a.s. ef efnið veldur engum öðrum skaða en þeim sem því er ætlað að valda. Annað slagið hafa hins vegar birst greinar sem benda til að þannig sé það einmitt ekki. Hér er ekki mögulegt að gefa neitt heildaryfirlit yfir þau fræði, heldur verða aðeins nefnd tvö dæmi um það sem komið hefur fram í dagsljósið á síðustu mánuðum.

 Í rannsókn sem bandarísku samtökin Moms Across America og Sustainable Pulse stóðu fyrir og sagt var frá í fjölmiðlum á liðnum vetri, kom fram að styrkur glýfosats í brjóstamjólk bandarískra kvenna væri allt að 1.600 sinnum hærri en leyfilegur styrkur efnisins í drykkjarvatni innan Evrópusambandsins. Það að svo mikið af glýfosati skyldi mælast í mjólkinni bendir til að efnið safnist upp í líkamanum, en hingað til hefur því verið neitað bæði af eftirlitsyfirvöldum og framleiðendum. Í rannsókninni voru einnig tekin sýni úr drykkjarvatni sem sýndu mun hærri styrk glýfosats en í Evrópu. Þetta kann að tengjast því að ræktun á erfðabreyttu soja og maís er mun útbreiddari í Bandaríkjunum en í Evrópu. Í fljótu bragði er tengingin þarna á milli kannski ekki augljós, en önnur tveggja erfðabreytinga sem náð hafa mestri útbreiðslu í landbúnaði gerir viðkomandi nytjaplöntu ónæma fyrir glýfosati, sem þýðir að hægt er að nota efnið í meira mæli en áður og með minni aðgát til að drepa illgresi, án þess að eiga á hættu að nytjaplantan drepist líka. Þetta er sú erfðabreyting sem almennt gengur undir nafninu Roundup-ready. Reyndar hefur þetta haft þær aukaverkanir að ýmsar tegundir illgresis hafa orðið ónæmar fyrir eitrinu og upp hafa vaxið nýir stofnar af ofurillgresi eða „superweeds“ eins og fyrirbærið er kallað á ensku. Þar með opnast væntanlega markaður fyrir nýjar gerðir af eitri og nýjar erfðabreytingar sem gera nytjaplöntur ónæmar fyrir því – og þannig koll af kolli, sem felur auðvitað í sér ný tækifæri fyrir fyrirtæki sem framleiða og markaðssetja bæði eitrið og erfðabreytinguna, rétt eins og tilfellið er með Monsanto. Í þessu sambandi má nefna að á árinu 2013 jókst sala á Roundup í Bandaríkjunum um 73% og nam þá samtals 371 milljón Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 43 milljörðum íslenskra króna.

 Eins og ég benti á áðan getur það svo sem verið allt í lagi að glýfosat finnist í grunnvatni ef það hefur engin skaðleg áhrif. Á sama hátt getur það svo sem verið allt í lagi að glýfosat finnist í brjóstamjólk ef það gerir engum neitt. Af grein sem birtist í september 2013 í tímaritinu Food and Chemical Toxicology má hins vegar ráða að svo gott sé það ekki. Í þessari grein kemur nefnilega fram að glýfosat geti stuðlað að hormónaháðum krabbameinsvexti í brjóstum kvenna jafnvel þótt styrkur efnisins sé ekki hærri en oft gerist þar sem það er notað sem illgresiseyðir. Áhrif efnisins á krabbameinsvöxt virðast magnast þar sem plöntuestrógenið genistein er einnig til staðar, en talsvert er einmitt af því efni í sojabaunum, sem eru eðli málsins samkvæmt, ásamt maís, annarri fæðu líklegri til að innihalda leifar af glýfosati.

 En svo við snúum okkur nú aftur að Vegagerðinni, þá kom fram í fréttinni sem vitnað var til í upphafi að Vegagerðin hefði engin önnur ráð til að eyða óæskilegum gróðri en að slá hann eða eitra fyrir honum. Reyndar er vandséð hvernig þau rök nýtast til að réttlæta notkun á breiðvirku eitri sem liggur undir grun um að valda ýmsum aukaverkunum. Í öllu falli mætti allt eins nota þessi rök til þess að réttlæta slátt. En í fréttinni kom líka fram að Vegagerðin hefði áhuga á að taka í notkun umhverfisvæna froðu sem er heit og drepur gróður. Þarna er á ferðinni athyglisverð nýjung sem ekki eru auðvelt að sjá að valda muni nokkrum teljandi aukaverkunum. Froðan gengur undir nafninu SPUMA og er þróuð og framleidd af verktakafyrirtækinu NCC í Svíþjóð. Þarna er einfaldlega um að ræða 95-98 stiga heitt vatn sem búið er að gera að froðu með því að blanda í það kókos- og maíssykri. Þessi blanda helst lengur heit en hreint vatn og virkar þess vegna enn betur til gróðureyðingar. Eftir svo sem 5 mínútur er blandan þó tekin að kólna verulega og eftir hálftíma er hún horfin með öllu, þó að auðvitað hverfi hvorki kókos né maís eins og dögg fyrir sólu. En þetta eru alla vega náttúruleg efni sem brotna fullkomlega niður og nýtast hugsanlega sem næring. Samkvæmt því sem fram kom í margumræddri frétt er þessi aðferð mjög dýr, en Svíarnir segja hins vegar að hún sé hagkvæm. Kannski er það vegna þess að þeir bera hana saman við aðra hitameðhöndlun en ekki við eitrun með Roundup. Kannski líta þeir ekki lengur á slíka eitrun sem valkost, enda ekki víst að hagkvæmnisútreikningarnir líti eins út ef kostnaður umhverfisins og komandi kynslóða er líka tekinn með í reikninginn.