Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hvers vegna umhverfismerkt?

18.01.2016 - 16:54
Mynd: - / ruv.is
Mikilvægi umhverfismerkinga er umfjöllunarefni Stefáns Gíslasonar í pistli hans í dag sem lesa má hér að neðan.

Norræna Svaninn og önnur umhverfismerki hefur oft borið á góma hér í Samfélaginu, m.a. í umræðu um varasöm efni í snyrtivörum. Slíkri umfjöllun hefur oftar en ekki lokið með ráðleggingum til hlustenda um að kaupa umhverfismerktar snyrtivörur til að vera vissir um að þær innihaldi ekki efni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu.

 Væntanlega er flestum eða öllum umhugað um eigin heilsu og þess vegna er auðskilið að það sé slæm hugmynd að nota vörur sem innihalda heilsuspillandi efni, sérstaklega þegar um er ræða vörur sem eru beinlínis til þess gerðar að liggja lengi á yfirborði líkamans, þ.e.a.s. á húðinni. En það getur verið að einhverjir sjái ekki alveg nauðsyn þess að velja umhverfismerkt þegar í hlut eiga vörur sem hafa engin bein áhrif á heilsuna. Hvaða máli skiptir t.d. hvort maður kaupir umhverfismerktan skrifstofupappír, sjónvarp, gluggakarma eða garðhúsgögn. Ekkert af þessu er mikið í snertingu við mann sjálfan, nema þá í mesta lagi garðhúsgögnin ef það skyldi einhvern tímann viðra til að nota þau.

 Til eru mörg svör við spurningunni um það hvers vegna maður ætti að kaupa umhverfismerktar vörur frekar en aðrar, jafnvel þótt vöruvalið hafi engin sýnileg áhrif á eigin heilsu. Eitt af þessum svörum er að með þessum innkaupum, rétt eins og öllum öðrum innkaupum, er maður að búa til markað. Þetta snýst ekki bara um það hvers konar eintak af vörunni við berum heim með okkur úr búðinni, heldur kalla hver kaup á meiri vöru af sama tagi. Um leið og maður velur vöru A í búðinni í stað vöru B er maður að greiða atkvæði með því að meira verði framleitt af vöru A. Maður er sem sagt að taka þátt í að auka eftirspurnina eftir vöru A, eða með öðrum orðum að kalla eftir auknu framboði af henni. Í þessum málum eru neytendur í „markaðsráðandi stöðu“, svo notað sé orðalag sem oft heyrist þessi misserin.

 Það að búa til markað fyrir umhverfismerktar vörur er ekki bara hugsjón. Í því sambandi er hollt að hafa í huga að eigin heilsa er ekki eina heilsan. Umhverfismerki gera ekki bara kröfur um efnainnihald vöru, heldur líka um það hvernig staðið var að framleiðslu vörunnar og um það hversu auðvelt er að koma vörunni fyrir kattarnef að notkun lokinni. Það skiptir t.d. heilmiklu máli fyrir heilsu annarra að gluggakarmarnir sem maður kaupir innihaldi ekki eiturefni sem losna úr læðingi við bruna, að garðhúsgögnin séu ekki smíðuð úr viði sem ræktaður var á svæðum þar sem áður voru regnskógar með fjölbreyttum gróðri sem veitti nærliggjandi samfélögum fæðu og skjól og að sjónvarpstækið sé auðvelt í endurvinnslu þannig að það arfleiði ekki komandi kynslóðir að hættulegum efnum og fátækt sem leiðir af skorti á þeim hráefnum sem notuð voru í þetta einnota tæki. Og þegar talað er um heilsu annarra er hollt að hafa í hug að „aðrir“ er ekki bara fólk í fjarlægum löndum heldur líka börnin manns sjálfs og börnin þeirra. Óbeinu heilsufarsáhrifin eiga það til að höggva nær manni er ætla má í fyrstu.

 Venjulegur skrifstofupappír er gott dæmi um vöru þar sem ekki verður séð í fljótu bragði að það skipti heilsuna neinu máli hvort varan sé umhverfismerkt eða ekki. Norræni svanurinn gerir þær kröfur til skrifstofupappírs m.a. að hann sé búinn til úr trefjum sem eiga uppruna sinn í sjálfbærri skógrækt eða úr pappírsafgöngum o.þ.h. Þá verður framleiðslan að hafa farið fram án mikillar losunar efna í loft og vatn, orkunýting í framleiðslunni verður að hafa verið innan vissra marka og efnanotkun sömuleiðis. Allar þessar kröfur fela í sér að til þess að fá Svaninn þarf varan að hafa verið framleidd á eins nærgætinn hátt gagnvart náttúrunni og best gerist, eða með öðrum orðum þarf framleiðandinn að hafa farið eins sparlega með auðlindir jarðar og framast er kostur. Það eitt hefur kannski ekki þráðbeina tengingu við heilsu okkar sjálfra á því andartaki sem varan er keypt eða notuð, en ef þessar sömu auðlindir ganga til þurrðar hefur það óhjákvæmilega áhrif á heilsu okkar sjálfra og allra annarra.

 Eitt sem oft vill gleymast þegar rætt er um umhverfismerkingar er að merkin tryggja ekki bara að framleiðsla, notkun og förgun viðkomandi vöru hafi eins lítil áhrif á umhverfið og mögulegt er, heldur eru umhverfismerki á borð við Svaninn líka gæðamerki. Til þess að fá Svaninn þarf varan að standast gæðapróf sem tryggir að varan virki eins og til er ætlast til þeirra nota sem um ræðir. Aðrar vörur til sömu nota hafa ekki endilega þurft að standast slíkt próf.

 Loftslagsmál eru eðlilega mikið til umræðu þessi misserin, m.a. í framhaldi af stóru loftslagsráðstefnunni í París í síðasta mánuði og væntingum sem bundnar eru við eftirfylgni hennar. Meðvitaðir neytendur velta nú m.a. fyrir sér kolefnisspori vörunnar sem þeir kaupa, þ.e.a.s. hversu mikið af koltvísýringi hafi losnað út í andrúmsloftið við framleiðslu vörunnar. Upplýsingar um kolefnisspor eru enn sem komið er vandfundnar á umbúðum, en hér koma umhverfismerkin til hjálpar. Umhverfismerki á borð við Svaninn eru nefnilega líka loftslagsmerki, þó að þau séu yfirleitt ekki kynnt sérstaklega sem slík. Loftslagskröfurnar liggja m.a. í kröfum um hóflega orkunotkun við framleiðslu og í þeim kröfum sem gerðar eru um orkunotkun umhverfismerktra raftækja, svo dæmi sé tekið. Umhverfismerkin bjóða því upp á einfalda leið til að minnka kolefnisspor í innkaupum venjulegs fólks og fyrirtækja.

 Míkróplast í snyrtivörum er einkar hentugt dæmi um eitthvað sem maður er örugglega laus við ef maður kaupir t.d. Svansmerktar snyrtivörur. En hvaða máli skiptir það? Þetta eru bara hreinar og fínar plastagnir sem gera skrúbbkremið að skrúbbkremi og tannkremið nógu hrjúft til að tennurnar verði hvítari. Þessar plastagnir gera manni ekkert. Þær komast ekki í gegnum húðina og „ekki er ég að fara að borða þetta krem“, svo aftur sé notað orðalag sem er algengt í samtímanum. Míkróplastið fer sem sagt ekki inn í líkamann, heldur skolast það beina leið í niðurfallið og er þar með úr sögunni – fyrir okkur sjálf – í bili. En hér sem víðar er hollt að hafa í huga að „burt er ekki til“. Úr niðurfallinu fer míkróplastið í fráveitukerfið og þaðan út í nærliggjandi vötn – eða yfirleitt út í sjó eins og málum er háttað á Íslandi. Í sjónum geta þessar plastagnir flotið um öldum saman, því að þær brotna seint og illa niður í náttúrunni. Eiturefni sem fyrir eru í sjónum loða gjarnan við þessar agnir og fyrr eða síðar hljóta margar þeirra að lenda í líkömum einhverra sjávarlífvera. Og þegar við – eða börnin okkar eða barnabönin – setjumst að snæðingi með bita af viðkomandi sjávarlífveru á diskinum okkar er hringrásinni lokað. Líklega hafa plastagnirnar sjálfar orðið eftir einhvers staðar á leiðinni á diskinn, en efnin sem þær voru búnar að safna utan á sig enda að einhverju leyti ofan í okkur sjálfum þrátt fyrir allt, jafnvel mörgum árum eða áratugum eftir að plastögnunum var skolað niður í þeirri fullvissu að þær hefðu engin neikvæð áhrif á heilsuna. Þarna kemur eigingirni augnabliksins í bakið á okkur. Skúbbkremið er komið heim – færandi hendi.

 

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður