Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvergerðingar undrandi á nágrönnum sínum

19.08.2019 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd: hveragerdi.is
Bæjarráð Ölfuss hefur hafnað beiðni íbúa við Brúarhvammsveg í Ölfusi sem óskuðu eftir því að mörkum sveitarfélagsins yrði breytt þannig að hús þeirra, lóðir og annað sem þeim tilheyrir fylgi framvegis sveitarfélaginu Hveragerði. Bæjarráð Hveragerðis er undrandi á „afdráttarlausri afstöðu Ölfusinga til viðræðna.“

Málið á sér langan aðdraganda og var erindi um breytingu á mörkum sveitarfélaganna fyrst sent fyrir fjórum árum. Málið var raunar síðast til umræðu í maí á þessu ári þegar Ölfus hafnaði því að land austan Varmár yrði fært úr lögsögu Ölfuss til Hveragerðis.  Bæjarráð Hveragerðis lýsti þá yfir miklum vonbrigðum með afstöðu nágranna sinna.  

Um miðjan júlí óskuðu svo íbúar við Brúarhvammsveg eftir því að fá að tilheyra Hveragerði, meðal annars vegna þess að þeir sóttu alla nær-og grunnþjónustu í Hveragerði. Til að mynda væru börn þeirra í leik-og grunnskóla í Hveragerði.  Bæjarráð Ölfuss hafnaði beiðninni og sagði í bókun sinni að nærþjónustan sem væri nefnd væri veitt af sveitarfélögunum í sameiningu.  „Það er því sveitarfélagið Ölfus, í samstarfi við sveitarfélagið Hveragerðisbæ, sem veitir þá góðu þjónustu sem um er rætt í erindinu.“ 

Málið var síðan tekið fyrir á fundi bæjarráðs Hveragerðis á fimmtudag. „Bæjarráð er undrandi á afdráttarlausri afstöðu Ölfusinga til viðræðna um breytt sveitarfélagamörk,“ segir í bókun bæjarráðs Hveragerðis.  Allir íbúar búsettir handan Varmár og neðan Sundlaugarinnar Laugaskarðs hafi óskað eftir að fá að tilheyra Hveragerði og í því ljósi sé þessi afstaða bæjaryfirvalda í Ölfus sérkennileg. „Bæjarráð hefði talið að slík ósk verðskuldaði að lágmarki einhverjar viðræður og því lýsir bæjarráð furðu sinni á þessari afgreiðslu.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV