Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hveragerði vill skoða sameiningu við Ölfus

Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjarstjórn Hveragerðis hefur óskað eftir sameiningarviðræðum við sveitarfélagið Ölfus og er meirihluti Hvergerðinga jákvæður í garð sameiningar. Sveitastjórn Ölfuss kannaði ekki hug íbúa til sameiningar þrátt fyrir áskorun þar um.

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí sendi bæjarstjórn Hveragerðis bréf til allra sveitarfélaga í Árnessýslu og skoraði á þau að kanna hug íbúa til sameiningar. Meirihluti Hvergerðinga reyndist vilja sameiningu og helst við sveitarfélagið Ölfus. Hveragerði klauf sig út úr sveitarfélaginu árið 1946 en talsverð samvinna er á milli Hveragerðis og Ölfuss. Hveragerði er eins og eyjan inni í Ölfusi; liggur ekki að neinu öðru sveitarfélagi. 

Tilfinningakönnun og svo raunveruleg kosning

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að ekkert kalli beinlínis á sameiningu við Ölfuss hvað varðar rekstur sveitarfélaganna. „En aftur á móti eru landfræðilegar aðstæður þannig að sameinað sveitarfélag hefði meiri slagkraft og gæti gert sig meira gildandi í atvinnumálum og á fleiri sviðum," segir Aldís. Hún bendir að í skoðanakönnun eins og þeirri sem framkvæmd var samhliða kosningum sé kosið um tilfinningu. Það sé ekki fyrr en að loknum sameiningarviðræðum sem kosið sé um raunverulegar aðstæður.

Sameiningarhugmynd ekki nýtilkomin

Stjórnmálaöflin í Hveragerði hafa ekki alltaf verið á einu máli um mögulega sameiningu við Ölfus. Í janúar árið 2012 lagði A-listi fram tilögu um sameiningarviðræður en meirihluti Sjálfstæðimanna felldi hana og lagði til í staðinn að teknar yrðu upp viðræður við Ölfuss um breytt sveitarfélagamörk. Sjálfstæðismenn eru með hreinan meirihluta í Hveragerði.

Telur líklegt að viðræður hefjist

Fjögur sveitarfélög urðu við kalli Hvergerðinga um sameiningarkönnun en ekki Ölfuss. Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri segir að í ljósi forsögunnar hafi menn ekki séð ástæðu til að framkvæma könnun nú. Síðast þegar hugur íbúa í Ölfusi var kannaður hafi mikill meirihluti verið á móti sameiningu. Hann tekur fram að bréf með ósk um sameiningarviðræður hafi ekki borist á hans borð í morgun og kjörnir fulltrúar eigi eftir að taka afstöðu til þess. Gunnsteinn segir að í ljósi mikillar samvinnu við Hveragerðisbæ telji hann ólíklegt að ósk um viðræður verði ýtt út af borðinu. Fara verði í greiningu á kostum þess og göllum að sameina sveitarfélögin. „Landfræðilega séð má segja að Hveragerði og Ölfuss séu heild þar sem Hveragerði á ekki sveitarfélagamörk að neinu öðru sveitarfélagi,"  segir Gunnsteinn.  

Stærri sameining ekki rædd á meðan

Í Árborg vildi meirihluti sameinast og flestir að öll sveitarfélög í Árnessýslu sameinuðust. Í Flóahreppi voru menn á sömu línu en þar var reyndar mjög naumur meirihluti fylgjandi sameiningu. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi vildi meirihluti sameiningu en flestir vildu sameina uppsveitir Árnessýslu, sameinast Bláskógarbyggð og Hrunamannahreppi. Á Flúðum var hinsvegar meirihluti á móti sameiningu en þeir sem voru fylgjandi vildu flestir frekar sameina uppsveitirnar heldur en Árnessýslu alla. 

Gunnsteinn  Ómarsson, bæjarstóri í Ölfusi, telur að niðurstöður um sameiningarkönnunum ekki geta tilefni til sameiningar á stærri grunni. „Ég ímynda mér að í fyrsta kasti ræði menn málin milli Hveragerðis og Ölfuss," segir Gunnsteinn. 

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, segir að í ljósi þess að meirihluti hafi verið á móti sameiningu þar muni hreppurinn ekki hafa frumkvæði að sameiningu uppsveitanna. „Menn verða rólegir á hliðarlínunni en ef aðrir fara á hreyfingu í kringum okkur getur verið að menn skoði það," segir Jón. Í könnuninni í Hrunamannahreppi var sérstaklega tekið fram að hún væri ekki bindandi. 

Sveitarfélögin þegar búin að rugla saman reitum

Talsverð samvinna er á milli sveitarfélaga í Árnessýslu. Þau eru Árborg, Flóahreppur, Ölfus, Hveragerðisbær, Grímnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógarbyggð og Skeiða- og Gnjúpverjahreppur. Öll utan Árborgar hófu samvinnu í skólamálum í lok síðasta kjörtímabils en höfðu áður starfað saman að velferðarmálum og útvíkkuðu það samstarf. Þá reka þau sameiginlegt slökkvilið og Héraðsnefnd Árnesinga fer með ýmis verkefni á sviði menningarmála svo sem rekstur byggðasafns og Héraðsskjalasafns, listasafns og tónlistarskóla. Þá hafa Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Bláskógarbyggð og Hrunamannahreppur haft sameiginlegan skipulags- og byggingarfulltrúa.