Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hver var Bárður sem bungan heitir eftir?

20.08.2014 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Bárðarbunga í norðvestanverðum Vatnajökli heitir eftir Gnúpa-Bárði sem kemur við sögu í Landnámubók og nefndur er í mörgum Íslendingasögum. Hann var málkunnugur öðrum frægum Bárði, sem kenndur er við Snæfellsás, en „Bungu“ Bárður er þekktur fyrir að hafa flutt úr Bárðardal í Skaftártungu.

Bárður sem bungan er kennd við kom frá Noregi. Hann lenti skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam land í dalnum sem síðan þá ber nafn hans, Bárðardalur. Hann virðist hafa verið fyrsti Norðlendingurinn sem sögur fara af, sem áttaði sig á því að betra væri að búa sunnan heiða. Bárður ákvað því að flytja fjölskyldu sína og búfénað yfir hálendið, alla leið í Skaftártungu, að Gnúpum í Fljótshverfi, þar sem hann settist að. Frá þessu er meðal annars sagt í pistli Hallgríms J. Ámundasonar, á vef Árnastofnunar. 

Leið Bárðar suður yfir hálendið hefur síðar verið kölluð Bárðargata, og líklegt má telja að hann hafi farið um þar sem nú heitir Vonarskarð, milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls. Beint þar austuraf er einmitt bungan sem kennd er við téðan Bárð. 

Á vefsíðunni nat.is segir að leið Bárðar hafi týnst, þannig að enginn veit nákvæmlega hvernig hann komst suður yfir hálendið, en líklega hafi hann farið suður með Skjálfandafljóti austanverðu, um Vonarskarð og Síðumannaafrétt. 

[email protected]