„Þessi nýyrðabanki á að svara þörf sem er hjá þjóðinni að taka þátt í mótun tungumálsins og leggja sitt af mörkum,“ segir Eva María Jónsdóttir. „Hver sem er gæti slompast niður á gott nýyrði. Svo eru auðvitað aðferðir til að smíða orð, bara eins og það eru aðferðir til að smíða hús. Það má auðvitað kynna sér þær. Ef við tökum dæmi orð sem var einu sinni orð ársins; hrútskýring, þá er það talið frekar óvenjulegt nýyrði eða óvenjuleg myndun nýs orðs. Það eru tveir orðstofnar í orðinu og fólk getur haft áhuga á þessu og þetta er mjög spennandi.“
Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, segir að mörg nýyrði og tökuorð hafa lagað sig svo vel að málinu að engum dettur í hug að þau séu tökuorð.
„Hugsið ykkur bara öll orðin í kirkjumálinu. Bara orðin kirkja, biskup, altari, klaustur, nunna, munkur. Þetta eru allt saman tökuorð úr latínu sem eru komin inn í málið með kristnitökunni. Þau hafa lagað sig svo vel að málinu að engum dettur lengur í hug að þetta hafi verið tökuorð.“
Hér má skoða Nýyrðabanka Árnastofnunar.
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Evu Maríu Jónsdóttur og Önnu Sigríði Þráinsdóttur í Morgunútvarpinu í spilaranum hér fyrir ofan.