Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hver myrti Benazir Bhutto?

Mynd: Wikicommons / Wikicommons

Hver myrti Benazir Bhutto?

13.03.2018 - 17:55

Höfundar

Rétt fyrir lok síðasta árs fór í loftið ný hlaðvarpssería frá BBC World Service, The Assassination. Þetta er þáttaröð um morðið á pakistönsku stjórnmálakonunni Benazir Bhutto. Fyrsti þáttur af tíu fór nánar tiltekið í loftið 27. desember 2017, nákvæmlega tíu árum eftir morðið á henni.

Fyrsti kvenkyns forsætisráðherrann í múslimaríki 

Benazir Bhutto varð fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra í múslimaríki, og gegndi hún embættinu tvisvar. Fyrst var hún kosin árið 1988, og aftur árið 1993. Konu gegndi embætti forsætisráðherra í Pakistan, í landi þar sem meira en tuttugu árum síðar, eða árið 2012, ráðist var á unga stúlku, Malölu Yousafzai, fyrir að berjast fyrir menntun stúlkna. Líkt og fleiri konur um víða veröld, sótti Malala sér innblástur til hugsjóna og verka Benazir Bhutto, bar meðal annars sjal stjórnmálakonunnar er hún kom fram í fyrsta sinn eftir skotárásina en það var þegar hún talaði í aðalbyggingu Sameinuðu þjóðanna á 16 ára afmælisdegi sínum, eins og sjá má í myndbandi á Youtube-rás The New York Times. 

Faðir hennar og bræður einnig teknir af lífi

Bhutto-ættinni hefur verið líkt við Kennedy-ættina, enda virðist einnig eins konar sorg hvíla yfir hugsjónafólki Bhutto-ættarinnar. Faðir Benazir, Zulfikar Ali Bhutto sem bæði gegndi embætti forseta og forsætisráðherra í Pakistan á 8. áratugnum, var til að mynda tekinn af lífi, og sömuleiðis bræður hennar.   
Benazir Bhutto var bolað úr embætti 1996 eftir ásakanir um spillingu. Nokkrum árum síðar flutti hún úr landi í sjálfskipaða útlegð en sneri aftur til Pakistans haustið 2007 og hugðist þá sinna stjórnmálum enn á ný. Bhutto hafði ekki verið nema 11 klukkustundir á pakistanskri grundu þegar reynt var að ráða hana af dögum. Ekki tókst tillræðið, og ekki heldur þau sem fylgdu í kjölfarið næstu tvo mánuði. Áætlun óvinanna tókst þó að lokum, þann 27. desember. Hún lést af völdum sprengju- og skotárásar í borginni Rawalpindi þar sem hún ávarpaði stuðningsfólk sitt.  

Heltekinn af málinu frá því að Bhutto var myrt

Breski frétta-og blaðamaðurinn Owen Bennett Jones stýrir þáttaröðinni um morðið á Bhutto en hann vann lengi sem fréttaritari í Pakistan og þekkir vel til málsins, sem og til Benazir Bhutto sjálfrar. Í upphafi þáttanna segist hann hafa verið heltekinn af málinu og rannsakað það í þaula síðasta áratuginn. Ýmsar kenningar hafa verið á lofti um banamann hennar, eða öllu heldur banamennina. Jones dregur saman og miðlar áður þekktum sönnunargögnum og staðreyndum í málinu en veitir nú hlustendum einnig aðgang að nýjum gögnum í málinu. Hann spjallar við vitni, sérfræðinga, fjölskyldu, samstarfsfólk sem og andstæðinga Bhutto. Og hann spjallar við aðra fjölmiðlamenn sem einnig hafa verið gagnteknir af málinu frá því hún var myrt. Þetta er afar fróðleg þáttaröð, sem gefur einstaka innsýn inn í flókna stjórnmálasögu Pakistans. Hægt er að nálgast The Assassination á vef BBC World Service sem og í hlaðvarpsforritum snjalltækja. 

Fjallað var um hlaðvarpsþættina í Lestinni á Rás 1 í dag.

Tengdar fréttir

Asía

Fimm sýknaðir í Bhutto-málinu

Asía

Musharraf á flótta undan réttvísinni