Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hver lesning veitir nýja sýn á söguna

Mynd:  / 

Hver lesning veitir nýja sýn á söguna

28.12.2017 - 13:57

Höfundar

„Eitt af því sem heldur athygli lesandans eru innbyrðis vísanir og speglanir í sögunni, hvað eftir annað rekst lesandinn á orð, atburði eða tákn sem vísa aftur í texta bókarinnar og mynda þannig vef af tengingum sem auka verulega gæði sögunnar og ánægju lesandans.“ Andri M. Kristjánsson las Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Andri M. Kristjánsson skrifar:

Bókin Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur er önnur skáldsaga höfundar en hún hefur einnig gefið út leikrit, smásögur og nokkurn fjölda af ljóðabókum sem hafa valdið mismiklu fjaðra(kok)i. Kristín hefur verið einn af áhugaverðustu höfundum seinni ára á Íslandi og er Elín, ýmislegt ekki til þess fallin að breyta því. Bókin fjallar um tvær konur, Elínu annars vegar sem vinnur við það að búa til leikmuni fyrir leikhús og kvikmyndir og hefur getið sér gott orð fyrir. Og hins vegar Ellen, ungt leikskáld sem hefur nýlega hefur lokið við að semja og selja sitt fyrsta leikrit. Leikhúsið ákveður að setja verkið á svið og það er í þeim undirbúning sem konurnar hittast konurnar aftur, þó svo að önnur þeirra muni ekki hvar þær hittust fyrst.

Bókin hefst á ávarpi sögumannsins til lesanda þar sem sögumaður útskýrir  tilgang bókarinnar. Þetta ávarp er áhugavert að því leyti að þar má finna margar vísbendingar um það sem mun koma fram í bókinni, samt sem áður eru vísbendingarnar nægilega loðnar til að skemma ekki fyrir þeim lesendum sem eru að koma að bókinni í fyrsta skiptið. Þar kemur einnig fram að það er Elín sem segir söguna og er því öll frásögnin lituð af hennar skoðunum og tilfinningum. Lesandinn er leiddur inn í heim Elínar með hennar eigin augum og sjónarhorn hennar á lífið er mjög áhugavert. Elín sem er leikmunahönnuður og lærður myndlistarmaður hefur annað sjónarhorn en margir aðrir. Eftirtektin með smáatriðum, fínum og smágerðum blæbrigðum í hversdagslegum hlutum, athöfnum og fólki sogar lesandann inn í veröld Elínar og hann gleymir sér jafn auðveldlega í lestrinum og Elín gleymir sér við að gera nashyrningshorn úr leir. Frásögninni af Ellen er miðlað í 3. persónu en áður en lesandinn fær aðgang að lífi Ellenar þá kynnist hann henni í gegnum sjónarhorn Elínar. Þessi fyrsta lýsing á Ellen er yfirborðskennd og kemst nokkuð nærri því hvernig það er að geta sér til um persónu fólks út frá útlitinu einu og sér, en eftir því sem líður á bókina opnast líf Ellenar fyrir lesandanum og hann fær að kynnast fortíð hennar betur. Samhliða því er sagt frá fortíð Elínar og þá kemur í ljós að margir atburðir í lífi beggja kvenna spegla hvorn annan og líf þeirra eru ekki jafn ólíkt og virtist í fyrstu. Það er vert að nefna að þó svo að söguþráðurinn sé góður þá er hann langt frá því að vera það eina sem drífur lesandann áfram við lestur bókarinnar. Eitt af því sem heldur athygli lesandans eru innbyrðis vísanir og speglanir í sögunni, hvað eftir annað rekst lesandinn á orð, atburði eða tákn sem vísa aftur í texta bókarinnar og mynda þannig vef af tengingum sem auka verulega gæði sögunnar og ánægju lesandans.

Persónusköpunin í bókinni er mjög vönduð, að minnsta kosti konurnar tvær sem mynda kjarna sögunnar. Elín kemur ekki fullsköpuð fram á fyrstu blaðsíðum bókarinnar heldur fær lesandinn að kynnast henni smátt og smátt, frásagnir úr nútímanum og fortíðinni blandast saman og gefa lesandanum mjög heildstæða mynd af Elínu, en þá ágætt að benda á þá staðreynd að það er Elín sjálf sem segir söguna og 1. persónu sögumenn eru frægir fyrir að vera ótrúverðugir, þó ekki verði lagt mat á sannsögli Elínar hér, um það verður hver að dæma fyrir sig. Ellen kemur fyrir sjónir lesandans í gegnum Elínu og eru frásagnir af henni blandaðar nútímanum og fortíðinni á sama máta og hjá Elínu. Í frásögninni af Ellen birtist trúverðug mynd af lífi unglings sem hefur gengið í gegnum ýmislegt, en þó svo að í frásögninni af Ellen birtast hlutir sem virðast ótrúlegir þá nær höfundur að flétta þá svo vel inn í frásögnina að hvergi sjást sprungur í persónusköpuninni.

„Eftir því sem ég heyrði textann oftar, því betri varð hann.“ (bls. 87) Þessi orð lætur Elín falla um leikrit Ellenar í sögunni. Þessi orð passa einnig vel við bókina Elín, ýmislegt, innri vísanir bókarinnar og táknin sem hægt er að túlka eru svo mörg að bókin verðskuldar að minnsta kosti tvær eða þrjár lesningar og hver lesning veitir lesandanum nýja sýn á söguna. Þessar vísanir og speglanir gera það líka að verkum að frásögnin verður margslungin og marglaga, og samhliða því veður lestrarupplifunin dýpri og merkingarþrungnari. Í blaðsíðufjölda er Elín, ýmislegt ekki umfangsmikil en að innihaldi er hún risastór. Þessi bók er vel gerð og það er í raun magnað hversu vel höfundi tekst að flétta saman þræði bókarinnar og skapa slíka heild sem bókin er.

 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk“

Bókmenntir

Bestu íslensku skáldverk ársins

Bókmenntir

Flétta, áferð og þræðir í allar áttir