Hver er þessi forseti Brasilíu?

Mynd: EPA-EFE / EFE

Hver er þessi forseti Brasilíu?

06.11.2018 - 15:55
Pétur Marteinn fór yfir úrslit brasilísku forsetakosninganna.

Þann 28. október varð Jair Bolsonaro forseti Brasilíu með 55,1% atkvæða.

Bolsonaro er frambjóðandi fyrir Social Liberal Party, sem er ekkert svakalega sósíalískur eða liberal flokkur. Helstu útspil hans í kosningabaráttunni voru að tala opinskátt gegn samkynhneigðum, kvenréttindum og feminisma, indjánum, flóttamönnum, eiginlega bara öllum minnihlutahópum og vinstri sinnuðu fólki. Hann hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu og að hvetja til nauðgana. Hann hefur meira að segja talað gegn regnskógum Brasilíu.

Vill koma hraðbraut í gegnum Amazonskóginn, gefa út námuleyfi á friðarsvæðum indjána og slaka á öllum kröfum um verndum umhverfisins. Hann vill leggja niður umhverfisráðuneyti Brasilíu og reka umhverfisverndarsamtök úr landi. Hann hefur lofað að draga Brasilíu úr Parísarsáttmálanum en hann hefur svo sem líka sagst ætla að vera þar áfram.

Bolsonaro, sem er stundum kallaður Trump of the Tropics, vill frjálsari lög um byssueign og hefur lofað herforingjastjórn Brasilíu sem var við völd 1964-1985. Herforingjastjórnin var fræg fyrir að pynta og drepa þúsundir af pólitískum andstæðingum sínum. Bolsonaro hefur kallað eftir því, í anda herforingjastjórnarinnar, að pólitískir andstæðingar hans verði skotnir.

En hvernig verður svona  maður forseti?

Kosningin er bakslag gegn spilltri vinstristjórn sem virðist ekki geta haldið lögum og reglu uppi í landinu. Ofbeldisglæpum hefur fjölgað mikið síðustu ár í Brasilíu og það hafa komið upp mikið af spillingarmálum hjá vinstristjórninni. Til að mynda var fyrrverandi forseta Brasilíu, Luiz Inácio Lula da Silva, bannað af dómstólum að bjóða sig fram því hann hefur fengið á sig dóm fyrir spillingu. Það eru reyndar lög sem Lula kom sjálfur í gegn árið 2010. Lula er reyndar gífurlega vinsæll í Brasilíu og hefði líklega unnið kosningarnar ef hann hefði fengið að bjóða sig fram.

Hlustaðu á innslagið í spilaranum fyrir ofan.