Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hver er Greta Thunberg?

07.02.2019 - 14:43
Mynd:  / 
Getur kannski hugsast að ein sextán ára stelpa í Svíþjóð eigi eftir að breyta meiru í loftslagsmálum en virðulegar sendinefndir um það bil 190 þjóða sem fljúga um heiminn þveran og endilangan til að hittast árlega á COP-fundum? Um það fjallar umhverfispistill Stefáns Gíslasonar í dag.

 

Í sumar verða liðin 27 ár frá því að fyrstu þjóðarleiðtogarnir undirrituðu Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og síðan þá hafa sendinefndir aðildarríkja samningsins hist á 24 árlegum aðildarríkjaþingum, eða svokölluðum COP-fundum, núna síðast í Katowice í Póllandi í desember, til að ræða hvernig best sé að koma í veg fyrir að styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu hækki með tilheyrandi röskun á loftslagi jarðar.

En þrátt fyrir alla þessa fundi hefur styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu hækkað á þessum 27 árum úr 360 milljónustuhlutum í 409 milljónustuhluta – og hækkar enn. Því er von að spurt sé hvort nóg sé að gert. 

Sextán ára stelpan sem um ræðir er Greta Thunberg, fædd í Stokkhólmi 3. janúar 2003, dóttir leikarans Svante Thunberg, sem var í æsku skírður eftir forföður sínum Svante Arrhenius sem fyrstur manna reiknaði út með skikkanlegri nákvæmni hvernig hækkandi styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu myndi leiða til hækkandi meðalhitastigs á jörðinni. Það var árið 1896, bara svona ef einhver skyldi halda að menn væru nýbúnir að átta sig á þessu samhengi.

Það að Greta Thunberg sé afkomandi Svante Arrhenius skiptir svo engu máli. Það sem skiptir máli eru áhrifin sem hún hefur þegar haft og gæti átt eftir að hafa. Sagan sýnir nefnilega að einn einstaklingur getur haft ótrúlega mikil áhrif ef hann er nógu heill í því sem hann er að gera og nógu þrautseigur til að halda því áfram þó að á móti blási. Þrautseigjan er heimavöllur Gretu Thunberg.

Sjálf segist Greta ekki vera neitt sérstaklega félagslynd, enda sé hún greind með Asperger og svoleiðis fólk sé ekkert endilega mikið í félagslífinu. Og hún lítur síður en svo á þetta sem einhvern veikleika, heldur alveg eins sem styrkleika. 

Afskipti Gretu af loftslagsmálum byrjuðu fyrir alvöru í maí í fyrra þegar hún var meðal vinningshafa í ritgerðarsamkeppni sem Svenska Dagbladet efndi til. Upp úr því höfðu ýmsir samband við hana og næstu vikur var lagt á ráðin um aðgerðir sem skólakrakkar gætu gripið til til að vekja athygli á loftslagsmálum.

Hún sá hins vegar ekki fram á að þær aðgerðir myndu gera mikið gagn, þannig að hún ákvað að gera þetta bara ein og sjálf. Það fyrsta sem hún gerði var að útbúa stórt spjald á stofugólfinu heima hjá sér með áletruninni Skolstrejk för klimatet, eða Skólaverkfall fyrir loftslagið.

Og þann 20. ágúst, daginn sem hún átti að byrja í 10. bekk, eins og sá bekkur er kallaður á Íslandi, skrópaði hún í skólanum og sat í þess stað ein með spjaldið sitt fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi, ákveðin í að vera þar á skólatíma hvern einasta dag fram yfir sænsku þingkosningarnar 9. september.

Krafan var einföld: Að ríkisstjórn Svíþjóðar myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið. Sjálf hefur hún orðað það þannig að henni hafi ofboðið svo að ekkert skyldi vera gert til að bregðast við loftslagskreppunni að hún yrði sjálf að gera eitthvað. Og stundum talar maður hærra með því gera ekkert, eins og t.d. að sitja bara fyrir utan þinghúsið, en að gera eitthvað, alveg eins og hvísl er stundum háværara en hróp, eins og hún hefur sjálf orðað það.

Eftir 9. september fór Greta að mæta í skólann fjóra daga í viku og læt nægja að vera í verkfalli á föstudögum. Og smátt og smátt fóru fleiri að veita þessu uppátæki eftirtekt, ekki bara í Stokkhólmi og ekki bara í Svíþjóð, heldur út um allan heim.

Í framhaldinu fór Greta að fá boð um að koma í viðtöl í fjölmiðlum og ávarpa ráðstefnur – og þessi boð hefur hún þegið eftir bestu getu, en þó með því skilyrði að hún geti komist á staðinn án þess að fljúga. Hún segist nefnilega ekki eiga neinn kolefniskvóta fyrir flugið af því að fullorðna fólkið sé löngu búið að eyða honum öllum.

Greta ferðaðist m.a. með lest til Katowice í desember, þar sem hún ávarpaði fyrrnefndan aðildarríkjafund, COP-24 sem sagt, og svo aftur til Davos í janúar til að ávarpa árlegan fund Alþjóðaviðskiptaráðsins (World Economic Forum). Þessi ferðalög eru öll farin með leyfi skólayfirvalda og foreldra hennar, sem þurfa auðvitað að borga fyrir hana ferðir og uppihald.

Þegar Greta var í Katowice um miðjan desember var hún komin með 14 þúsund fylgjendur á Instagram. Í morgun voru þeir orðnir 259 þúsund. Og þetta snýst ekki lengur um eina stelpu og eitt þinghús í einni borg. Í desember fóru um 20 þúsund krakkar í skólaverkfall fyrir loftslagið í a.m.k. 270 borgum í Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu, oftast undir myllumerkinu #fridaysforfuture.

Á hverjum föstudegi setur Greta myndir af skólaverkföllum víða um heim inn á Instagramsöguna sína. Síðasta föstudag mátti þar m.a. sjá myndir frá Písa og Róm, Bern og Basel, Edinborg og Árósum, Luleå, Melbourne í Ástralíu, Boulder í Kólóradó, Þórshöfn í Færeyjum, Mandal í Noregi og Moskvu, svo eitthvað sé nefnt, börn á öllum aldri í hvaða veðri sem er, jafnvel sitjandi í svefnpokum úti í snjónum, öll með hávær en samt hljóðlaus skilaboð til leiðtoga ríkja heims um að nú verði að gera eitthvað í loftslagsmálum og fyrst þeir ætli ekki að gera það, þá muni þau gera það sjálf.

Líklega var fjölmennasta verkfallið hingað til í Liège í Belgíu í síðustu viku, þar sem 15 þúsund skólabörn tóku þátt. Og í þessari viku neyddist umhverfisráðherra Flanders, eða Flæmingjalands eins og þetta sambandsland heitir á íslensku, til að segja af sér eftir að hafa sett fram upplogna samsæriskenningu um meint öfl sem stæðu á bak við verkföllin í Belgíu.

Greta Thunberg er orðin nógu áberandi til að einhverjir eru farnir að gagnrýna hana og reyna að gera hana tortryggilega. Þessu hefur hún öllu svarað skýrt og skilmerkilega, en segir þó að einni röksemd eigi hún engin svör við, nefnilega þeirri röksemd að hún sé bara barn og að fullorðnir ættu ekkert að vera að hlusta á börn.

En það er auðvelt að ráða bót á þessu, segir hún. „Byrjið bara að hlusta á alvöruvísindi í staðinn“. Því að ef allir myndu hlusta á vísindamennina og staðreyndirnar sem hún sé alltaf að vísa í, þá myndi enginn þurfa að hlusta á hana eða nokkurt annað þessara hundruða þúsunda barna út um allan heim sem fara í skólaverkfall fyrir loftslagið. Þá gætu þau bara öll farið aftur í skólann.

Í dag er fimmtudagur. Á morgun er föstudagur. Kannski verður morgundagurinn fyrsti föstudagurinn sem íslensk skólabörn fara hópum saman í þögult skólaverkfall fyrir loftslagið. Hvísl er nefnilega stundum háværara en hróp.

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður