Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hvenær eiga dómarar að nota myndbandsupptökur?

Mynd með færslu
 Mynd:

Hvenær eiga dómarar að nota myndbandsupptökur?

08.03.2019 - 22:35
Mikið hefur verið rætt um myndbandsdómgæslu, einnig þekkt sem VAR (e. video assistant referee) eftir leik Vals og Fjölnis í undanúrslitum Coca Cola-bikars karla í handbolta í kvöld. En hvernig er reglugerðin varðandi notkun þess?

Fjölnir var með 22-21 forystu í leik kvöldsins þegar Valur fór í síðustu sókn sína í leiknum. Þegar fimm sekúndur voru eftir braut Arnar Máni Rúnarsson úr Fjölni á Magnúsi Óla Magnússyni. Aukakast var dæmt en eftir endurskoðun á sjónvarpsskjám breyttu dómarar leiksins, Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson, dómnum í rautt spjald og vítakast við mikil mótmæli Fjölnismanna. Anton Rúnarsson skoraði úr vítinu og 22-22 lokatölur leiksins. Valsmenn höfðu svo betur eftir framlengingu.

Dóminn má sjá hér og umræðu dómara leiksins í aðdraganda hans.

Hér má sjá umræðu Arnars Péturssonar og Loga Geirssonar, sérfræðinga RÚV, um dóminn.

Íþróttadeild RÚV fékk í dag senda reglugerð Handknattleikssambands Íslands sem snýr að myndbandsdómgæslu sem er frá því í október 2018. Hana má sjá hér að neðan.

Myndbönd og myndbandssannanir

1. grein
Dómarar leikja geta nýtt sér myndbandsupptökur til lokaákvörðunar um dóma í leikjum sem eru í beinni sjónvarpsútsendingu sé slíkt í boði. Þrátt fyrir þessa heimild er skulu dómarar í einu og öllu fara eftir leikreglum IHF í sínum ákvörðunum og er ekki um að ræða breytingu á þeim reglum og viðmiðunum sem nú gilda.

2. grein
Dómarar geta eingöngu nýtt sér myndbandsupptöku strax eftir viðkomandi atvik og aðeins við eftirfarandi aðstæður:

  1. 1. Mark eða ekki mark - ákvörðun um hvort að allur boltinn hafi farið yfir alla marklínuna.
  2. 2. Mark eða ekki mark - ákvörðun um hvort að leiktími hafi runnið út áður en allur boltinn fór yfir alla marklínuna. (Lok hálfleikja og framlenginga.)
  3. 3. Alvarleg óíþróttamannsleg atvik: utan sjónsviðs dómara; og fjarri bolta.
  4. 4. Í þeim tilvikum að vafi er á því hvaða eða hvort leikmanni skuli refsað með útilokun (rauðu spjaldi).
  5. 5. Í þeim tilvikum að fleiri en tveim leikmönnum lendir saman (hópslagsmál).
  6. 6. Ef um er að ræða ranga skiptingu eða of marga leikmenn á vellinum og vafi leikur á því hvaða leikmaður sé brotlegur.
  7. 7. Þegar um er að ræða atvik sem falla undir reglu 8.10c eða 8.10d og dómarar eru í vafa um hvað skal dæmt (bolti úr eða í leik).
  8. 8. Í þeim tilvikum að dómarar eru í vafa hvort um brot sé að ræða eða leikaraskap til að villa um fyrir þeim.

3. grein
Í öllum tilvikum verða dómarar að taka ákvörðun byggða á mati þeirra og eru þær ákvarðanir endanlegar. Myndbandsupptöku ætti aðeins að nota ef vafi er á einhverju af ofangreindum atriðum í

2. grein og ætti að líta á sem viðbótaraðstoð til að komast að réttri niðurstöðu. Eftirlitsmaður getur aðeins notast við myndbandssönnun í tilvikum sem falla undir 6. tl. 2. greinar. . Eftirlitsmaður getur hins vegar beðið dómara um að nýta sér myndbandssönnun ef hann telur að atvik hafi gerst utan sjónsviðs dómara skv. 3 tl. sömu greinar

4. grein
Ferlið við notkun á myndbandssönnunum er sem hér segir:

Rétthafi útsendinga setur upp skjá með heyrnartóli á viðeigandi stað í salnum eins nálægt ritaraborðinu og mögulegt er. Vilji dómarar nota myndbandssönnun, gefa þeir merki um leikstöðvun og með því að teikna ferning með höndunum sýna þeir að þeir óski eftir að nota myndbandssönnun. Dómarar fara að skjánum og fá samband við stjórnanda útsendingar og í samráði við hann finna þeir atvikið eins og það kemur fram í upptökunni.

Dómarar skulu taka ákvörðun eins hratt og mögulegt er.

5. grein
Reglur þessar taka gildi þegar í stað.

Október 2018

Tengdar fréttir

Handbolti

FH vann nauman sigur og mætir Val í úrslitum

Handbolti

Sjáðu dóminn sem réði úrslitum í Höllinni

Handbolti

„Versti dómur sem ég hef séð í handbolta“

Handbolti

Valur í úrslit eftir hetjulega baráttu Fjölnis