Hvattir úr landi

26.03.2011 - 19:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjóri CCP segir hvatann í kerfinu augljóslega þann að fyrirtækið flytji hluta af starfseminni úr landi. Með því að fresta áfnámi gjaldeyrishaftanna um tæp fimm ár sé komin upp ný staða sem þurfi að fara vandlega yfir. Fyrirtækið CCP framleiðir og rekur tölvuleikinn Eve-Online. Um 360.000 manns spila leikinn, um þúsund þeirra komu til landsins um helgina til að taka þátt í sérstakri hátíð spilara, svokallaðri Fanfest. Tekjur CCP eru að mestu í útlenskum gjaldmiðlum, því hafa gjaldeyrishöftin gert fyrirtækinu erfitt fyrir. Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands kynntu í gær áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna. Tæp fimm ár gætu liðið áður en þau verða afnumin að fullu.

„Það er náttúrlega ekki nógu gott þegar verið er að breyta reglunum svona. Það var upphaflega sagt að þessi gjaldeyrishöft yrðu í tvö ár og nú er þetta gefið út að þetta sé í fimm ár - að mér skilst. Þannig að það er komin upp ný staða. Og við verðum bara að fara vandlega yfir það ef þetta gengur eftir“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.


Fyrirtækið hefur ekki fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftunum eins og flest stærri alþjóðleg fyrirtæki. Hilmar segir ástæðuna fyrir því vera, að fyrirtækið sé með of mikla starfsemi á Íslandi. Samkvæmt lögum þyrfa 80% af starfssemi fyrirtækis að vera í útlöndum til að fá almenna undanþágu.


„Það er augljóslega hvatinn í kerfinu að við flytjum meira af starfseminni út.“


Þetta er í sjöunda sinn sem Fanfest er haldin og fer hátíðin stækkandi ár frá ári. Í ár er gert ráð fyrir að hver gestur skili um þrjúhundruð þúsund krónum inn í hagkerfið.


„En svona með því að horfa á hvað þessi hópur er búinn að vera að gera síðustu daga þá held ég að þessi tala sé nú miklu hærri. En ef við miðum við 300.000 krónur og margföldum það með 1.000 gestum þá eru þetta um 300 milljónir sem fara inn í hagkerfið og ekkert í gegnum CCP bara beint inn - það eru þessi margfeldisáhrif sem svo oft er talað um.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi