Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvar ertu núna, Benjamín?

Mynd: pexels.com / pexels.com

Hvar ertu núna, Benjamín?

17.03.2017 - 16:05

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir mætti í Víðsjá og var með hugann við draumaprinsa, gleðikonur og dægurlagatexta um þessa þjóðfélgashópa. Hér að ofan má hlusta á pistilinn en þetta hafði Sigurbjörg að segja:

Góðir hlustendur, íslensk dægurlög, rétt eins og önnur dægurlög, eru mörg hver til í ýmsum útgáfum og getur verið giska mismunandi hvernig þau orka á mann. Stundum er boðskapurinn jafnvel ólíkur milli flytjenda, t.d. vegna textameðferðar eða áherslu, og það kemur jafnvel fyrir að texta hafi verið breytt. Þetta er vel þekkt þegar hann breytist í hún, eða öfugt, þegar mið er tekið af kyni flytjanda, stundum er erindum sleppt og svo framvegis. Svo er auðvitað til í dæminu að boðskapurinn sé mismunandi í eyrum ólíkra hlustenda, þ.e.a.s. í þeim skemmtilegu tilvikum þegar fólki misheyrist. Um misheyrnir popptexta hafa verið gerðir heilu þættirnir, Konur ilma / Komdu Hilmar, o.s.frv. – og alltaf bætast ný dæmi við.

Var það Benjamín eða Benóný?

Ég heyrði um daginn, á ferð um Hvalfjarðargöng, útgáfu af hinu ástsæla lagi Draumaprinsinum, að þessu sinni með Valgerði Guðnadóttur, og margt varð til þess að upplifunin varð ný. Í fyrsta lagi var í bílnum fermingarstúlka sem söng eftirfarandi línu: Kannski sé ég draumaprinsinn bera mig af ballinu … nokkuð sem ég hafði aldrei heyrt áður. „Kannski sé ég draumaprinsinn bera mig af ballinu, hann leggur sterkan arm um minn barm og við svífum í eilífðardans.“ Nei, þá leiðrétti bílstjórinn og sagði að það væri ekki „um minn barm“ heldur „um mitt bak“ og mér fannst miður að missa innrímið. Þá var annar unglingur í bílnum sem benti á að þetta gæti eins verið „kannski sé ég draumaprinsinn berja mig á ballinu,“ sem er óneitanlega verra í öllum skilningi …

En Benóný var, samkvæmt venju, draumaprinsinn í fyrri parti lagsins og við hlógum öll að misheyrnum okkar og sungum áfram með Valgerði. Í miðhluta lagsins brá hins vegar svo við að Benjamín, sem við þekktum hjá Ragnhildi Gísladóttur forðum, var hvergi sjáanlegur, heldur hélt Benóný sínu striki og virtist vera eini gæinn á svæðinu. Ég fór að hugsa: Þetta er kannski meiri breyting en fólk heldur í fyrstu. Eða hvað finnst ykkur? Getur verið að „leiðréttingin“ (ef við hugsum okkur að Benjamín hafi verið mismæli/misminni í upphaflegu útgáfu lagsins) eða, í það minnsta breytingin (þegar honum Benjamín, sem við þekkjum öll, er kippt út) breyti jafnvel tíðarandalýsingunni af íslenska djamminu? Í stað vonarinnar um að hitta einhvern, bara hvern sem er, Benóný, Benjamín, Benedikt eða Brján, sem hægt er að hugsa sér að svífa með í eilífðardans, er komin til skjalanna gamla, hefðbundna draumsýnin um einn tiltekinn draumaprins. Hinn eina rétta. Að sama hversu margar þúsundir bíla þjóti hjá, verði tilveran ástlaus ef Benóný mætir ekki. Þetta er sennilega verðugt umhugsunarefni fyrir mannfræðinga, félags- eða kynjafræðinga … Hvað segir þetta t.d. um muninn á lauslæti og leit, hvað segir þetta um frumkvæði stúlkna, sjálfstæði, og svo framvegis – það er eins og ég hef áður sagt, það vantar fleiri ráðstefnur um íslenska dægurlagatexta!

Ég skil þetta bara eftir hérna, eins og sagt er á samfélagsmiðlunum, en áður en við sleppum hendinni af laginu má þakka Magnúsi Eiríkssyni fyrir fleira skemmtilegt. Línan „Allir eru að eldast / missa tennur og hár“ í nefndu lagi er til dæmis svalasta viðbragð níunda áratugarins við æskudýrkun. Það er aldrei of seint að skella sér með!

Hús hinnar rísandi sólar

Nú, á heimleiðinni heyrði ég annað lag sem varpaði nýju ljósi á kynjahlutverkin og ekki síður á líf og örlög aðalpersónunnar. Það var hið margfræga lag House of the Rising Sun, sem líklega er langfrægast með hljómsveitinni bresku The Animals. En þarna heyrði ég það fyrst í flutningi hinnar ágætu Dolly Parton. Lagið er í rauninni gamalt þjóðlag, sem menn hafa elt fylkjanna á milli í Bandaríkjunum í leit að móðukenndum uppruna þess, og ekki síður í leit að húsinu Sólarmiðju, Sunnuhvoli eða Röðli, House of the Rising Sun. Í útgáfu Animals hefur ljóðmælandi ekki fagra sögu að segja og bendir mæðrum á að forða börnum sínum frá því að fara að sínu dæmi, eyða lífinu í synd og eymd „in the House of the Rising Sun“. Hann er af verkafólki kominn, faðirinn gamblaði með fé og drykkjan var allra meina bót, þetta hús hefur eyðilagt margan manninn, þar á meðal ljóðmælandann sjálfan. Þegar Dolly Parton syngur er hins vegar annarri hlið mála snúið fram: Faðirinn var vissulega fjárhættuspilari en móðirin er látin og allar götur síðan hefur sú sem þarna mælir starfað við að þýðast menn í House of the Rising Sun, húsi sem fabrikkerar ást og peninga. Hún biðlar til allra mæðra um að forða dætrum sínum frá því að fara að sínu dæmi, eyða lífinu í syndsamlegt líferni, skömm og ströggl í House of the Rising Sun, þessu húsi sem hefur eyðilagt marga unga stúlkuna um dagana.

Lagið um húsið er til í ótal útgáfum, enginn veit fyrir víst um hvaða hús er sungið eða hvort það var yfir höfuð til, en oftast er það dapur staður þrátt fyrir rómantískt nafnið – ýmist vændishús, fangelsi, spilavíti eða bar. Flytjendur hafa verið fjölmargir, frægir eru m.a. Woodie Guthrie, Joan Baez og Bob Dylan, auk Dolly Parton, og það er skemmtilegt að heyra hana túlka lagið frá hinu kvenlega sjónarhorni, sem var víst hið viðtekna sjónarhorn, eða í það minnsta mjög algengt, áður en Animals gerðu sína útgáfu heimsþekkta.

So mothers you go telling all your daughters
Not to do what I've done
To live a life of sin, shame and strife
In the house of the rising sun

Hver elskar ekki misheyrnir?

Já, það er margt í mörgu í maga Ingibjörgu, eins og segir í vísunni, eða í maganum á Ingibjörgu, hvernig sem þetta var nú aftur – einmitt, kannski er ekki alltaf hægt að segja að maður kunni rétta útgáfu, hvort sem undir er gömul vísa, þjóðlag eða þekkt dægurlag. Útgáfurnar eru stundum fleiri en ein, misheyrnir kveikja sumar, endurútgáfur kveikja aðrar, og ritskoðun einhverjar. Og sumt er líka lagað að aðstæðum hverju sinni, eins og sjá má af því að hús hinnar rísandi sólar er bara alls ekki alltaf í New Orleans, ef rannsakaðar eru útgáfur þjóðlagsins í öðrum landshornum.

„Kannski sé ég Draumaprinsinn Baua Kling á ballinu,“ verður kannski einhvern daginn sungið, enda eru Baui og Kling meðal þeirra eiginnafna og millinafna sem mannanafnanefnd samþykkti í fyrra. Þannig breytast tímarnir, vindarnir og lífvænlegustu dægursmíðarnar með.