Gangi áform Landsvirkjunar eftir verður Hvammsvirkjun gangsett árið 2019. Sveitastjórnir á svæðinu kanna nú hvort gera þurfi nýtt umhverfismat.
Fulltrúar Landsvirkjunar hittu í morgun sveitarstjóra og oddvita Rangárþings ytra og sveitarstjóra og oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps til að ræða næstu skref.
Helsta niðurstaða fundarins var að leita til Skipulagsstofnunar um að hún gefi álit á því hvort þurfi að endurskoða mat á umhverfisáhrifum en matið sem er fyrir er frá árinu 2003. Ferðamannastraumur á svæðið hefur aukist og menn vilja láta kanna þessa þætti. Ef þessi áform ganga eftir hefjast þau á veglagningu og brúarsmíði yfir Þjórsá, 30 km ofar en sú sem er fyrir. Gert er ráð fyrir að virkjun verði gangsett árið 2019 ef allt gengur eftir.