Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hvalveiðar spilla samstarfi við Bandaríkin

02.04.2014 - 07:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur verið falið að endurskoða tvíhliða samstarf við Ísland, vegna hvalveiða Íslendinga.

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir þær stefna viðgangi langreyðarstofnsins í hættu og grafa undan tilraunum til að tryggja hvölum vernd um heim allan.

Obama hefur falið innanríkisráðuneyti sínu að endurskoða tvíhliða samstarf við Ísland. Ráðuneytið eigi, þar sem það á við, að byggja samstarf Bandaríkjanna við Ísland á því að íslensk stjórnvöld breyti stefnu sinni í hvalveiðimálum.

Þetta er meðal þeirra aðgerða sem forsetinn hefur fyrirskipað stofnunum bandaríska ríkisins að ráðast í, vegna hvalveiða Íslendinga. Greint er frá þeim í bréfi forseta til Bandaríkjaþings, sem lagt var fram á mánudag, og birt er á vef Hvíta hússins.

Þar segir að Íslendingar ætli að veiða 154 langreyðar á ári, fram til ársins 2019. Alþjóða hvalveiðiráðið telji hins vegar að aðeins sé hægt að veiða 46 langreyðar á ári, þannig að veiðarnar teljist sjálfbærar.

Þá segir í bréfi forseta að veiðar Íslendinga stefni viðgangi langreyðarstofnsins í hættu og grafi undan tilraunum til að tryggja hvölum betri vernd um heim allan.

Hann hefur einnig falið bandarískum erindrekum að taka málið upp þar sem við á, leita leiða til að draga úr verslun með hvalaafurðir, tilkynna íslenskum yfirvöldum um afstöðu Bandaríkja og hvetja Íslendinga til að nýta hvali á annan hátt en að veiða þá, t.d. með hvalaskoðun.

Þá er bandarískum ráðherrum og öðrum embættismönnum fyrirskipað að meta hvort viðeigandi sé að þeir heimsæki Ísland, vegna hvalveiða Íslendinga og kanna á möguleikann á frekari aðgerum, haldi hvalveiðarnar áfram.