Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvalveiðar hafi ekki áhrif á viðskiptahagsmuni

08.09.2018 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur loks svarað fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um mótmæli gegn hvalveiðum og viðskiptahagsmunum. Reglan er sú að ráðuneyti hafa 15 virka daga til að svara skriflegum fyrirspurnum en fyrirspurnin var lögð fyrir 9. maí síðastliðinn. Í svari utanríkisráðherra kemur fram að hvalveiðar hafi ekki haft teljandi áhrif á hagsmuni Íslands eða samskipti við önnur ríki þótt þær valdi einstaka núningi.

Jafnframt kemur fram í svari utanríkisráðherra að ekki sé unnt að véfengja rétt Íslands til að nýta lifandi sjávarauðlindir á borð við hval með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Þá segir hann að honum sé ekki sérstaklega kunnugt um að mótmæli helstu viðskiptaríkja standi fyrir dyrum umfram það sem orðið er vegna yfirlýsingar Hvals hf. um að hefja að nýju veiðar á langreyðum. Hvað varðar störf Íslands í Norðurskautsráðinu segir hann að í engu hafi íslensk stjórnvöld orðið þess áskynja að hvalveiðarnar muni hafa áhrif á formennsku Íslands í ráðinu.

Í svarinu kemur einnig fram að ekkert hafi komið fram sem bendir til þess að ákvörðun Hvals hf. hafi áhrif á málaleitanir ráðherra um fríverslunarsamninga við Bandaríkin og Bretland sem eru yfirlýstir andstæðingar stórhvalveiða í viðskiptaskyni og að ólíklegt sé að bandarísk stjórnvöld muni herða á aðgerðum sínum.

Á fundi ríkisstjórnar 11. maí síðastliðinn var óskað eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin meti þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, auk þess sem Hafrannsóknastofnun meti fæðuþörf hvala og vægi hennar í lífríki sjávar hér við land. Niðurstöður þeirrar vinnu, auk annarra þátta, munu nýtast við frekari ákvarðanir er lúta að stefnu Íslands í hvalveiðum.