Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvalurinn hamlar loðnuveiðunum

23.01.2019 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd: www.eskja.is
Það var hending ef maður sá hval á loðnumiðunum fyrir 30 árum, segir Grétar Rögnvarsson skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU sem Eskja gerir út. Nú sé hann með allri ströndinni.

Grétar ræddi bágt útlit í loðnuveiðum í Morgunútvarpinu. Mælingar Hafrannsóknarstofnunar benda til að hrygningarstofn loðnunnar nái ekki því lágmarki að hægt sé að leyfa veiðar. Grétar segir sjór hafi hitnað við landið og göngumynstur loðnunnar hafi breyst. Hann telji að loðnan haldi sig norðar og vestar en áður. 

„Hvalurinn er í harðri samkeppni við okkur. Ef að hvalastofninn borðar níu þúsund tonn á dag þá náttúrulega þarf hann aldeilis sitt.“

Hvað segja menn í flotanum, hafa menn trú á þessu sem menn hafa verið að tala um núna til dæmis að auknar hvalveiðar geti haft einhver áhrif á þetta?

„Þegar ég byrjaði loðnuveiðar fyrir 31 ári síðan þá var hending ef maður sá hval. Menn hópuðust saman til að horfa á þennan eina hval sem sást, eða tvo eða þrjá eða eitthvað. En núna sjáum við hval með allri ströndinni bara. Oft fyrir Norðurlandinu er þetta bara vandræðaástand að kasta nót. Það eru eiginlega svona meiri líkur en minni að þú lokir hval inni í nótinni þar sem hann er að gramsa í sig loðnu úr torfunum.“