Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hvalur þögull um hvalmjölið sem fór í bjór

14.01.2014 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Hvalur hf., sem lét brugghúsið Steðja hafa hvalmjöl til að bragðbæta þorrabjór, gefur ekki upplýsingar um hvers vegna hvalmjölið var afhent. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands bannaði framleiðslu bjórsins í gær þar sem hvalmjöl má ekki nota til manneldis.

Sigurður Örn Hansson forstöðumaður matvælaöryggis hjá Matvælastofnun sagði í samtali við fréttastofu í gær að Hvalur hefði aðeins leyfi til að selja hvalkjöt, spik og rengi til neyslu. Hvalur hefði því ekki leyfi til að framleiða lýsi og hvalmjöl til manneldis. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands bannaði síðan framleiðslu bjórsins. Brugghúsið Steðji notaði nokkur kíló af hvalmjöli til að bragðbæta bjórinn og fékk afhent efnagreiningarvottorð á innihaldinu. Eigandi Steðja sagði í samtali við fréttastofu í morgun að forsvarmönnum Hvals hafi verið ljóst að nota átti mjölið í bruggunina. Ef hella þurfi niður bjórnum verði hann fyrir milljónatjóni.

Þegar fréttastofa leitaði eftir skýringum hjá Kristjáni Loftssyni eiganda Hvals neitaði hann að tjá sig og skellti á fréttamann.