Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hvalir meira virði lifandi en dauðir

07.05.2013 - 13:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands mótmælir harðlega ákvörðun Kristjáns Loftssonar að hefja hvalveiðar á ný. Sérhagsmunir eins aðila gangi með þessu fyrir almannahagsmunum.

Samkvæmt fréttatilkynningu þess efnis liggur fyrir að hvalaskoðun um land allt skili mun meiri verðmætum til þjóðarbúsins en hvalveiðar muni nokkru sinni gera. Eina leiðin til sjálfbærar nýtingar hvalastofnanna við landið sé að sýna þá með ábyrgum hætti erlendum og innlendum ferðamönnum. Hvalir séu mun meira virði lifandi en dauðir.

Hvalveiðar sem stundaðar séu í óþökk og algjörri andstöðu við helstu viðskiptalönd og viðskiptavini muni ávallt skaða orðspor landsins og hafa neikvæða umfjöllun í för með sér með ófyrirsjánlegum afleiðingum.

Ferðamálasamtök Íslands skora því á stjórnvöld að hlutast til um að meiri hagsmunum verði ekki fórnað fyrir það sem þau kalla sérhagsmuni Kristjáns Loftssonar.