Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvalaskoðun án sjóveikra farþega

20.08.2018 - 19:45
Skjólgóður Steingrímsfjörður hefur reynst hvalaskoðunarfyrirtæki á Hólmavík vel. Leiðsögumaður segir fáheyrt að svo fáir verði sjóveikir í hvalaskoðunarferðum eins og hjá þeim - sérstaklega á Íslandi.

Hvalir alla daga nema einn

Fyrir síðasta sumar hafði aldrei verið látið reyna á hvalaskoðun frá Hólmavík. „Það var bara hrefna hérna áður fyrr og lítið varið í það en mikið af hnúfubak undanfarin ár. Sérstaklega núna seinna árin,“ segir Már Ólafsson, skipstjóri. Hvalaskoðunarfyrirtækið Láki tours ákvað að láta slag standa. „Þetta er annað sumarið okkar með hvalaskoðun hér í Steingrímsfirði og hingað til höfum við séð hvali nánast á hverju degi. Það var einn dagur sem að við sáum engan hval. – Stundum sjáum við hvali áður en við förum um borð og fólk er mjög hissa yfir því,“ segir Judith Scott, leiðsögumaður fyrir Láki Tours. Í tveggja tíma ferð er oftast hægt að sjá hnúfubak en stundum einnig hrefnu, höfrunga, grindhval og andarnefjur. 

Óvenjulegt að vera með hvalaskoðun án sjóveikra

„Ég hef aldrei verið með sjóveikan einstakling um borð hér í Hólmavík. Það er ekki eitthvað sem maður getur sagt á mörgum stöðum í heiminum. Við erum í skjólsælum firði svo og opið haf nokkurn spöl í burtu. Svo við fáum ekki undirölduna inn í fjörðinn sem gerir fólk gjarnan sjóveikt,“ segir Judith Scott. Leiðsögumaðurinn getur því einbeitt sér að hvölum frekar en gubbandi farþegum.

Stundum of fáir sem er þó einnig kostur

Hverskonar viðbót er þetta við það sem er í boði hérna á Hólmvík? „Fólk stoppar, fer á veitingastaðina, tjaldar og hefur eitthvað við að vera – fleiri koma sem myndu ekki koma ella,“ segir Már. Þótt ferðirnar gangi vel þá kemur það fyrir að þeim sé aflýst vegna ónægrar þátttöku. „Við viljum augljóslega fá fleira fólk svo við þurfum ekki að aflýsa ferðum vegna mannfæðar. En það er jafnframt það sem gerir þetta sérstakt að það eru ekki mörg hundruð manns og margir bátar sem fara hérna út,“ segir Judith. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður