Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvalagriðland í Eyjum í uppnámi - Jun Jun dauð

19.07.2017 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Stephen Mcculloch - us.whales
Jun Jun einn þriggja mjaldra sem til stóð að flytja til Vestmannaeyja frá Kína er dauð. Sérfræðinganefnd leggst gegn innflutningnum en hvalfriðunarsinnar halda ótrauðir áfram enda telja þeir verkefnið ákaflega mikilvægt. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir að dýrin gætu orðið fleiri en tvö eða þrjú því mikil eftirspurn sé eftir hvalagriðlandi.

Næst stærsta skemmtigarðafyrirtæki heims, Merlin - entertainment vinnur að því að færa hvali og höfrunga úr vist í vatnstönkum í dýragörðum og koma þeim í athvörf þar sem aðbúnaður þeirra er náttúrulegri. Þeir leituðu til Vestmannaeyjabæjar og hafa um skeið unnið að því að flytja þrjá Beluga-hvali, eða mjaldra, til Eyja frá dýragarði í Shanghæ.

Sjávarútvegsráðuneytið og Matvælastofnun gáfu grænt ljós á áformin en Umhverfisstofnun hefur enn ekki tekið endanlega afstöðu. Stofnunin fékk hinsvegar Sérfræðinganefnd um framandi lífverur til að meta áhrif þess að flytja mjaldrana hingað til lands og lagðist nefndin gegn því vegna þess að hvalirnir gætu flutt með sér örverur og sníkjudýr.  Merlin og Vestmannaeyjabær óskuðu eftir því að fá að senda inn frekari gögn og nefndin mun taka þau til skoðunar þegar sumarfríum líkur.  Elliði Vignisson bæjarstjóri vonast til að gögnin breyti afstöðu nefndarinnar. 

„Ég held að þetta byggi á ákveðnum misskilningi, það vantaði ákveðin gögn sem útskýrðu hvað við erum að gera og við erum bæði jákvæð og bjartsýn á að með auknum gögnum og auknu samtali þá verði niðurstaðan önnur heldur en nei, enda mikilvægt verkefni“ segir Elliði. 

Jun Jun drepst óvænt 

Mjaldrarnir þrír heita Jun Jun, Little White og Little Gray en nýlega var greint frá því að Jun Jun hefði drepist vegna veikinda. 

Mikið hagsmunamál fyrir Vestmannaeyjar

Elliði segir að verkefnið sé mjög mikilvægt fyrir Vestmannaeyjar en ekki síður land og þjóð. „Þetta er dýravelferðarverkefni og þetta er ferðaþjónustuverkefni og hvort tveggja er mikilvægt fyrir okkur sem land og þjóð. Þannig að verkefnið heldur áfram. Og til skoðunar er einnig að fá hingað fleiri dýr því það eru dýragarðar um allan heim sem eru í vandræðum með þessa tegund þannig að upp verður staðið kann að vera að dýrin verði fleiri en tvö eða þrjú“ segir Elliði. 

 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV