Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvaða númer eru á lausu hjá Everton?

Mynd með færslu
Gylfi Þór Sigurðsson verður hvorki númer 10 eða 23 hjá Everton. Mynd: RÚV

Hvaða númer eru á lausu hjá Everton?

16.08.2017 - 09:03
Búast má við því að Gylfi Þór Sigurðsson verði kynntur sem nýr leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Everton greiðir Swansea 45 milljónir punda eða því sem nemur rúmlega 6,3 milljörðum íslenskra króna.

Gylfi verður dýrasti leikmaður í sögu Everton og þá hefur enginn íslenskur íþróttamaður gengið kaupum og sölum milli félaga fyrir nærri því jafn háa upphæð. Það er því ekki óeðlilegt að margur velti sér upp úr hinum ýmsu hliðum á félagaskiptum Gylfa í dag.

Þegar Gylfi hefur gengist undir læknisskoðun hjá Everton í dag og samið um kaup og kjör þarf hann að velja sér númer aftan á treyjurnar sem hann mun spila í fyrir félagið. Gylfi hefur leikið í treyju númer 23 hjá Swansea og 10 hjá íslenska landsliðinu. Ljóst er að þau treyjunúmer eru þó ekki á lausu hjá Everton.

Ross Barkley á förum?

Wayne Rooney leikur í treyju númer 10 og írski bakvörðurinn Seamus Coleman er númer 23. Þó númerið aftan á treyju Gylfa skipti kannski litlu máli í stóra samhenginu, getur verið gaman að velta því fyrir sér, enda munu væntanlega fjölmargir aðdáendur Everton og Gylfa merkja treyjur sínar með nafni og númer Gylfa á næstu vikum.

Treyjunúmerin sem liggja á lausu hjá Everton eru 13, 14, 18, 19, 24, 27, 32, 34-40 og svo 42 og upp úr. Ross Barkley sem leikur í treyju númer 8 hjá Everton hefur svo þrálátlega verið orðaður burt frá félaginu. Óvíst er þó hvort treyjunúmeri hans verði úthlutað meðan Barkley er enn leikmaður Everton.

Barkley er samningsbundinn Everton til loka júní 2018. Talið er líklegt að Chelsea sé reiðubúið að greiða 50 milljónir punda fyrir þjónustu Barkley. Ef þær viðræður eru þegar hafnar milli Everon og Chelsea gæti Gylfi vel endað með númerið 8 á bakinu hjá Everton.