Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvað felst í Hvalárvirkjun?

01.11.2017 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
VesturVerk, sem er að mestu í eigu HS Orku, hyggst reisa Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum. Hvalárvirkun er í orkunýtingarflokki Rammaáætlunar en Skipulagsstofnun telur virkjunina koma til með að hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og víðerni. Forsvarsmenn halda þó sínu striki og boða bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum. En hvað liggur fyrir? Og hvað er enn óljóst?

Hvað fer undir virkjun og lón?

Með Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á að virkja Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará á Ófeigsfjarðarheiði til raforkuframleiðslu. Gert er ráð fyrir því að afl virkjunarinnar verði 55 MW og orkuframleiðsla um 320 GWh á ári sem er meira en heildarnotkun raforku á Vestfjörðum.

Framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar

Virkjun þriggja vatnsfalla

Veita á ánni Rjúkanda með 25 metra hárri stíflu í miðlunarlón, Vatnalautalón, sem er myndað með 21 metra hárri stíflu í Hvalá. Vatni Vatnalautalóns á svo að veita áfram í Hvalárlón sem er myndað í Efra- og Neðra-Hvalárvatni með 33 metra hárri stíflu í Hvalá. Þá stendur til að gera lón úr Eyvindarfjarðarvatni með 19 metra hárri stíflu og veita vatni þaðan um jarðgöng í Hvalárlón. Frá Hvalárlóni verður vatni veitt um aðrennslisgöng til norðurs að neðanjarðarstöðvarhúsi og þaðan um frárennslisgöng sem opnast rétt fyrir ofan ósa Hvalár í Ófeigsfirði.

Þróun og framganga virkjunar í Hvalá

 

Skipuð í orkunýtingarflokk Rammaáætlunar

Hvalárvirkjun var skipuð í orkunýtingarflokk 2. áfanga Rammaáætlunar árið 2011. Rökstuðningur með flokkun hennar í orkunýtingarflokk var sá að Hvalárvirkjun var þá eini virkjunarkosturinn á Vestfjörðum sem var metinn af öllum faghópum og að hún skipti máli fyrir orkuöryggi á Vestfjörðum. Þá var gert ráð fyrir 35 MW virkjun. Verkefnastjórn 3. áfanga Rammááætlunar staðfesti svo Hvalárvirkjun í orkunýtingarflokki sem 55 MW virkjun en þingsályktunartillaga 3. áfanga Rammaáætlunar hefur ekki verið samþykkt. Skipan virkjunarkosts í orkunýtingarflokk fylgir ekki skylda til að virkja eða til að veita framkvæmdaleyfi fyrir virkjun. Sveitarfélög, í þessu tilfelli Árneshreppur, veita framkvæmdaleyfi. 

Neikvæð áhrif á óbyggð víðerni

Skipulagsstofnun telur, í áliti sínu á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar, að Hvalárvirkjun hafi veruleg neikvæð áhrif á óbyggð víðerni. Framkvæmdirnar skerði víðáttumesta, samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum um 226 km², sem eru um 14 prósent víðernanna.

Í áliti Skipulagsstofnunar er bent á að í náttúruverndarlögum eru verndarmarkmið um landslag og víðerni þar sem segir að standa skuli vörð um óbyggð víðerni landsins. Þar eru óbyggð víðerni miðuð við 25 km² sem sé margfalt minna en óbyggðu víðernin sem á að raska með virkjuninni. Við þessa útreikninga er ekki tekið tillit til samlegðaráhrifa virkjunarinnar og tengingar hennar við flutningskerfið. VesturVerk hefur boðað að raforkan verið leidd yfir Ófeigsfjarðarheiði með jarðstreng sem væri umhverfisvænna en loftlína en samkvæmt upplýsingum frá Landsneti liggur ekki fyrir hvernig tengingu við virkjunina verður háttað, hvort leggja eigi jarðstreng eða loftlínu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Séð yfir Ófeigsfjarðarheiði

Heiðarvötn verða að lónum

Lónin þrjú á að mynda með fimm stíflum. Undir Vatnalautalón fara fjögur vötn, Nyrðra- og Syðra-Vatnalautavatn auk tveggja lítilla vatna. Flatarmál lónsins verður mest um 7,8 km². Undir Hvalárlón fara Efra- og Neðra-Hvalárvatn og verður flatarmál lónsins mest 2,8 km². Eyvindarfjarðarlón verður myndað í Neðra-Eyvindarfjarðarvatni og stækkar 2,1 km². 

Skipulagsstofnun bendir á að:

Stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 og stærri, og fossar og nánasta umhverfi þeirra njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Forðast ber að raska slíkum vistkerfum og jarðminjum nema brýna nauðsyn beri til. 

Fossar minnka og hverfa

Virkjunin kemur til með að hafa áhrif á rennsli Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár neðan lóna þar sem vatni ánna verður safnað í lónin þrjú. Neðan stífla verða farvegir nær þurrir á vorin og fram á sumar. Þegar lónin fyllast rennur yfirfall í lónin og rennsli eykst í ánum á ný. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Guðbjartsson - Morgunvaktin
Rennsli Rjúkanda minnkar í 40-80 prósent af náttúrulegu rennsli

Rjúkandi verður nær vatnslaus neðan stíflu. Þegar áin kemur að Rjúkandafossi, sem er 1,8 km ofan við ármót Rjúkanda og Hvalár, verður vatnsmagnið 40 prósent af náttúrulegu vatnsmagni. Þegar yfirfall er úr Vatnalautalóni gæti vatnsmagnið náð 80 prósentum af náttúrulegu rennsli. Rjúkandafoss er einn fossa árinnar Rjúkanda og er 40 metra hár. Sést úðinn oft frá láglendi. Þá eru einnig fleiri fossar í ánni sem er ekki getið í matsskýrslu virkjunarinnar. Farvegur Hvalár verður, líkt og farvegur Rjúkanda, þurr neðan stíflu. Við Hvalárfossa, sem eru nálægt ósum árinnar í Ófeigsfirði, verður rennslið þriðjungur af náttúrulegu rennsli.  

Hvalárfossar í Hvalá. Myndin er tekin í júlí 2017.
Hvalárfossar Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vatnsmagn Hvalár verður þriðjungur náttúrlegs vatnsmagns

Í Hvalá eru fleiri fossar og 2,2 kílómetra neðan við fyrirhugaða stíflu við Hvalárlón er hæsti foss Hvalár, Drynjandi. Drynjandi er 70 metra hár og fellur ofan í Hvalárgljúfur. Eftir virkjun verður Drynjandi, og aðrir fossar í nágrenni hans, nær vatnslaus eða með 5 prósent af náttúrulegu vatnsmagni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Már Björnsson
Nánast ekkert vatn verður í Drynjanda sem fellur í Hvalárgljúfur

Í Eyvindarfjarðará eru fjölmargir fossar og flúðir. Vatnsmagn þeirra, sem eru næstir ósum árinnar, verður um þriðjungur þess sem það er nú. Þó verður vatnsmagnið meira þegar yfirfall rennur úr Hvalárlóni.

25 kílómetrar af vegum á framkvæmdasvæðinu

Vegna Hvalárvirkjunar er gert ráð fyrir því að vegurinn frá Norðurfirði að Hvalá verði lagfærður þannig að hægt verði að koma vinnuvélum og flutningabílum eftir honum. Innan virkjunarsvæðisins er gert ráð fyrir 25 km af vegum, allt einbreiðum malarvegum með útskotum til mætinga. Þá hefur VesturVerk boðað línuveg frá virkjuninni yfir Ófeigfjarðarheiði yfir í Ísafjarðardjúp en hann er ekki til umfjöllunar í matsskýrslu, aðaskipulagi eða deiliskipulagi virkjunarinnar þar sem ekki hefur verið gengið frá tengingu virkjunarinnar við flutningskerfi Landsnets.

Árneshreppur , Höfnin, bryggja, bátar, bátur, smábátur, vestfirðir, Strandir.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Norðurfjörður í Árneshreppi

Áhrif á ferðamennsku

Ekki verður lagt verðmat á óbyggðir Íslands en Ferðamálastofa telur þær vera afar mikilvæga auðlind fyrir íslenska ferðaþjónustu, bæði sem áfangastað ferðamanna en ekki síður vegna þeirra áhrifa sem þær hafa á ímynd Íslands í hugum væntanlegra gesta. 

Rannsóknarmiðstöð ferðamála telur norðanverðar Strandirnar hafa mikið gildi fyrir náttúruferðamennsku og að fólk sæki þangað í náttúruna og fámennið. Með Hvalárvirkjun breytist ásýnd og yfirbragð svæðsins við norðanverðan Ófeigsfjörð í manngert umhverfi. Bættar vegasamgöngur gætu þó bætt aðgengi fólks að svæðinu. Í athugasemdum við aðalskipulagsbreytingar í Árneshreppi telur Ferðamálastofa þó að óvíst sé hverskonar aðgengi vegirnir skapa og hvort þeir opni nýjar ferðmannaleiðir. 

Lengi barist fyrir bættum samgöngum

Íbúar í Árneshreppi hafa lengi barist fyrir bættum samgöngum í Árneshrepp, þangað er til dæmis ekki rutt yfir háveturinn. Forsvarsmenn Hvalárvirkjunar hafa boðað bættar samgöngur í sveitarfélaginu en þær eiga við bættan veg norður úr Trékyllisvík í Ófeigsfjörð, vegi á framkvæmdasvæði og boðaðan línuveg yfir Ófeigsfjarðarheiði í Ísafjarðardjúp, vegir sem verða ekki heilsársvegir. Bætur á veginum í Árneshrepp í tengslum við Hvalárvirkjun eru ekki á dagskrá en Vegagerðin telur að aukin umsvif og aukin umferð kalli á aukna fjármuni til viðhalds og þjónustu og eftir atvikum endurbætur á vegakerfinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - RÚV
Línuvegur myndi liggja yfir Ófeigsfjarðarheiði

Fjöldi starfa á virkjunartíma en ekki til frambúðar

Gert er ráð fyrir 350 ársverkum við að byggja virkjunina, sem og við undirbúning, vegagerð, við að setja upp vinnubúðir og rannsóknir. Á framkvæmdatíma, sem er talið að gæti verið tvö og hálft ár, er talið að um 70 manns starfi á svæðinu á veturna og mest um 200 að sumarlagi. Á meðan framkvæmdum stendur má gera ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir þjónustu á nærsvæði framkvæmdanna. Skipulagsstofnun bendir hins vegar á að starfsmenn, sem búa í tímabundnum vinnubúðum greiði útsvar til síns sveitarfélags, þar sem þeir eiga lögheimili, og útsvarstekjur verkamanna renni því ekki til Árneshrepps. Eftir að framkvæmdum lýkur verður virkjuninni fjarstýrt og hún mannlaus. Samkvæmt matsskýrslu gæti virkjunin skapað einhver framtíðarstörf vegna eftirlits- og viðhaldsverkefna og þá fær sveitarfélagið fasteignagjöld af virkjuninni og er áætlað að heildartekjur fyrir sveitarfélagið aukist um 15 milljónir á ári. Ekki hafa verið tekið saman hagræn og samfélagsleg áhrif sem að virkjunin getur haft, eins og hefur til dæmis verið gert um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og Kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. Forsvarsmenn virkjunarinnar hafa boðað að með tilkomu virkjunarinnar ætli þeir að bæta innviði í Árneshreppi, til dæmis með hitaveitu og ljósleiðara en Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins og hefur lengi barist fyrir bættum innviðum.

Ófeigsfjörður. Myndin er tekin í 2017.
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Ófeigsfjörður

Vaxandi hagnaður af framkvæmdinni

VesturVerk hóf rannsóknir og undirbúning Hvalárvirkjunar árið 2007. Ekki hefur komið fram hverjir kaupendur raforkunnar verða en VesturVerk segir raforkuna eiga að fara inn á almennan markað. Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, segist ekki veita upplýsingar um útlagðan kostnað fyrirtækisins vegna undirbúnings virkjunarinnar en segir að hann hlaupi á hundruðum milljóna. Þá er ljóst að framkvæmdin er kostnaðarsöm sem og tengigjald við dreifikerfi Landsnets sem er samkvæmt fyrrverandi ráðherra og vikublaðinu Vestfirðir tæplega 500 milljónir árlega. Áætlaður hagnaður af Hvalárvirkjun, samkvæmt minnisblaði Hagfræðistofnunar, sem Sigurður Jóhannesson tók saman fyrir Landvernd, verður 1,5 milljarður fyrsta árið en allt að tveir milljarðar eftir 15 ár, sé miðað við heildsöluverð Landsvirkjunar fyrir árið 2016. 

Samningar við landeigendur

Virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar eru í eigu afkomenda síðustu ábúenda í Ófeigsfirði og nokkurra eigenda VesturVerks. Landeigandi norðan Eyvindarfjarðarár er Felix Von Longo-Liebenstein, ítalskur barón. Samningar um virkjunarleyfi voru undirritaðir árin 2008 og 2009. Samkvæmt minnisblaði Hagfræðistofnunar er áætlað að miðað við samning VesturVerks við landeigendur þá megi gera ráð fyrir því að leigugreiðslur til eigenda Ófeigsfjarðar verði stighækkandi frá tæpum 30 milljónum á ári í um 160 milljónir árlega eftir 20 ár. Ekki er fjallað um tekjur Felix Von Longo-Liebenstein í samningi hans við VesturVerk. Samkvæmt frétt Stundarinnnar er lítið vitað að um ítalska baróninn Longo-Liebenstein nema að hann er einnig einn eigenda kísilverksmiðjunnar United Silicon.

Meira en þriðjungur í eigu erlendra aðila

HS Orka á 70 prósent í VesturVerki og 30 prósent eru í eigu einkaaðila á Vestfjörðum. Hluteigendur í HS Orku eru Magma Energy Sweden, sem á 53,9 prósent, Jarðvarmi, sem á 33,4 prósent og Fjárfestingarsjóðurinn Örk sem á 12,7 prósent. Jarðvarmi er í eigu 13 lífeyrissjóða og Örk að mestu í eigu lífeyrissjóða. Erlent eignarhald í VesturVerki, sem reisir Hvalárvirkjun er því tæp 38 prósent. Móðurfélag Magma Energy Sweden AB er Alterra Power Corp sem er með höfuðstöðvar í Kanada og sameinaðist nýlega kanadíska fyrirtækinu Innergex. 

Raforkulögum breytt fyrir tengipunkt

Lengi vel var talið að Hvalárvirkjun stæði ekki undir tengigjaldi sínu við landsnetið í Geiradal, eins og lagt var upp með samkvæmt núgildandi aðalskipulagi, þar sem vegalengdin þangað og þar af leiðandi kostnaðurinn væri of mikill. Staðan breyttist þó þegar hugmyndir um nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi komu fram. Vorið 2016 fóru hugmyndir um nýjan afhendingarstað raforkunnar á flug og fyrrverandi ráðherra útskýrði stöðuna á Alþingi og að nýr tengipunktur, afhendingarstaður raforkunnar, kæmi til með að lækka tengikostnaðinn fyrir VesturVerk úr 2 milljörðum í 500 milljónir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mun styttra er leiða rafmagn í Ísafjarðardjúp en í Geiradal

Fyrrverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, breytti reglugerð í raforkulögum til að tryggja að tengipunktur yrði að veruleika. Breytingin felst í því að gera flutningsfyrirtækinu, Landsneti, heimilt að miða við áætlun um hærra hlutfall tekna við útreikning kerfis­framlags ef þeir eru með fyrstu tengingu stórnotenda á svæðinu eða að tengingin sé sú fyrsta á nýju svæði þar sem er virkjanaklasi. Kerfisframlag er það sem VesturVerk þarf að greiða í fjárfestingu Landsnets vegna nýrrar tengingar. Í ræðu sinni á Alþingi benti ráðherra á að kerfisframlagið væri óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir virkjunaraðilana. 

Kostnaður við tengipunkt falli á almenna notendur

Landvernd er meðal þeirra sem hefur gagnrýnt að kostnaðurinn við nýjan tengipunkt falli á almenna notendur. Atvinnuvegaráðuneytið segir framkvæmdina við tengipunktinn ekki eiga að vera ríkisstyrkta og Orkumálastjóri hefur sagt að með tilkomu annarra smærri virkjana í Ísafjarðardjúpi, eins og Skúfnavatnavirkjunar, 10MW, og Austurgilsvirkjunar, 35 MW, séu komnar viðskiptalegar forsendur fyrir nýjum tengipunkti. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti þá telur Landsnet að aukinn flutningur sem hlýst af nýjum tengipunkti skapi tekjustreymi fyrir Landsnet sem komi til með að  ganga upp í kostnað við fjárfestingu á tengipunktinum. Austurgilsvirkjun er þó eina virkjunin, til viðbótar við Hvalárvirkjun, sem hefur fengið umfjöllun í Rammaáætlun og hefur verkefnastjórn Rammaáætlunar samþykkt hana í orkunýtingarflokk. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - RÚV
Fyrirhugaðar framkvæmdir við fleiri virkjanir í Djúpinu

Nýr tengipunktur veltur á þáttum í óvissu

VesturVerk hefur óskað eftir formlegum viðræðum um tengingu Hvalárvirkjunar við nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti þá eru margir þættir í ferlinu enn í óvissu og ekki ljóst hvenær hægt verður að taka ákvörðun um tengipunkt. 

 

Tenging Hvalárvirkjunar við tengipunkt í Ísafjarðardjúp er ekki á aðalskipulagi Árneshrepps og enn óljóst hvort tengingin verður loftlína eða jarðstrengur. Landsnet ber samkvæmt raforkulögum að tengja virkjanir sem eru yfir 10 MW við flutningskerfi Landsnets. Útfærsla línunnar er ekki frágengin en hún kemur til með að liggja um tvö sveitarfélög, Árneshrepp og Strandabyggð. Í áliti Skipulagsstofnunar á matsskýrslu Hvalárvirkjunar kemur fram að stofnunin telji æskilegt að leyfisveitingar til línulagnar og virkjunarinnar fari samhliða.

Virkjun bæti raforkuöryggi Vestfirðinga

Forsvarsmenn Hvalárvirkjunar hafa boðað bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum með tilkomu Hvalárvirkjunar en afhendingaröryggið á Vestfjörðum er það lakasta á landinu. Þar sem Vesturlína, línan sem tengir Vestfirði við flutningskerfi Landsnets, er eins konar botnlangi og raforkuframleiðsla á Vestfjörðum minni en notkunin þá mega ekki verða truflanir á raforkuflutningi um Vesturlínu frá Hrútafirði í Mjólká til að það hafi áhrif á rafmagnið á Vestfjörðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet - landsnet.is
Tenging Vestfjarða við flutningskerfið er eins og botnlangi

Með því að tengja Hvalárvirkjun við Vesturlínu í Kollafirði þá styrkist flutningur á Vesturlínu því að ef Vesturlínu slær út austan við Kollafjörð er hægt að hleypa raforku á flutningskerfið á Vestfjörðum frá Hvalárvirkjun. Tíðar bilanir á flutningskerfi raforku eru þó ekki eingöngu bundnar við Vesturlínu heldur einnig við flutningskerfið innan Vestfjarða sem eru ekki undir nýjum tengipunkti komnar, í farvatninu eru framkvæmdir til að bæði auka raforkuframleiðsla í Mjólka og nágrenni sem og bæta flutningskerfið frá Mjólká til norðurs og suðurs. Í svörum við fyrirspurn fréttastofu lítur Landsnet á raforkuöryggi Vestfirðinga og mögulega Hvalárvirkjun sem aðskilin mál en að Hvalárvirkjun geti verið hagkvæmur kostur til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - GoogleMaps
Tenging Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets

Sjá tengipunktinn sem lið í hringtengingu Vestfjarða

Íbúar á Vestfjörðum hafa lengi kallað eftir hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum til að tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Bundnar eru vonir við að mögulegur tengipunktur í Ísafjarðardjúpi sé fyrsti áfangi slíkrar tengingar. Það er þó ljóst að hringtenging Vestfjarða er ekki á dagskrá í nálægri framtíð, eins og fram kom í svörum iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð, á borgarafundi á Ísafirði í lok september: „Hringtengingin er lengra [en tengipunktur] inn í framtíðina, kostar meiri peninga, en þessi atriði [tengipunktur] munu skipta verulegu máli,“ (mínúta 1:55:21). Pétur Markan, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, segir hringtengingarmöguleikann felast í því (2:58:31) að bæta við smávirkjunum í Ísafjarðardjúpi sem tengjast einnig nýjum tengipunkti og þannig byggist hringurinn enn frekar upp. Ekkert er þó ákveðið með aðrar virkjanir í Ísafjarðardjúpi nema Austurgilsvirkjun sem er norðan við Djúpið. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti þá eru hugmyndir um hringtengingu enn í skoðun en aðrir kostir koma einnig til greina til að bæta raforkuöryggi Vestfjarða.

Hafa undirbúið virkjun í 10 ár og halda því áfram

Þótt Hvalárvirkjun hafi ekki komist í umræðuna fyrr en í sumar þá hefur VesturVerk, í eigu HS Orku, unnið að undirbúningi í 10 ár. Þótt enn eigi eftir að ganga frá því hvernig raforka virkjunarinnar verði tengd við flutningskerfi landsnets heldur verkefnið áfram og unnið er að deiluskipulagi og aðalskipulagsbreytingum til að VesturVerk geti lokið rannsóknum og skipulagsvinnu fyrir virkjunina. Að því loknu stendur til að hefja vegagerð að fengnu framkvæmdaleyfi hreppsnefndar. Breytingarnar ná eingöngu til þeirra þátta sem þarf til að VesturVerk geti lokið því verki sem þörf er talin vera á. Framkvæmdaleyfi er veitt af hreppsnefnd Árneshrepps, fámennasta sveitarfélags landsins.