Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvað er vitað um nýju Wuhan-kórónaveiruna?

Mynd: EPA-EFE / EPA
Ár rottunnar byrjar undarlega í Kína. Yfir þrjátíu milljónir Kínverja eru í hálfgerðri sóttkví í Hubei-héraði í Kína, almenningssamgöngur innan héraðsins liggja niðri og öllum leiðum út úr því hefur verið lokað. Aðgerðir stjórnvalda eru fordæmalausar. Þau hafa ráðlagt fólki að halda sig sem mest innan dyra og fá lækni heim ef þarf. Wuhan-borg er sögð minna á draugaborg, göturnar auðar og enginn fer út öðruvísi en grímuklæddur.

Áramótin eru venjulega gleðitími, tími samveru og fjöldasamkoma en ekki í ár. Íbúar Wuhan reyna samt að standa saman og stappa stálinu hver í annan á erfiðum tímum og á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo hefur verið dreift upptökum af fólki sem hrópar baráttukveðjur í kór út um glugga fjölbýlishúsa í borginni og syngur kínversk þjóðlög. Hér má sjá myndband kínversku fréttastofunnar CGTN. 

Vel tengd háskóla- og hátækniborg

Wuhan er ellefu milljóna manna borg á stærð við Lundúni, sjöunda stærsta borg Kína. Í Wuhan mætast tvö fljót með tilkomumiklum hætti, hið gulleita Yangtze og hið bláa Han og skýjakljúfar teygja sig til himins. Þetta er ein mikilvægasta iðnaðarborg Kína, bæði hefðbundinn framleiðsla og hátækniiðnaður og hvergi í Kína eru fleiri háskólanemar. Wuhan er líka samgöngumiðstöð, eitt best tengda svæði heims. Tuttugu milljónir farþega fara um Wuhan-flugvöll á hverju ári.

Nærri 10.000 smit staðfest

Nærri tíu þúsund manns hafa greinst með veiruna og að minnsta kosti 213 hafa látist af veikindum sínum. Langflest tilfelli hafa greinst í Kína þar sem veiran er talin eiga upptök sín en sautján ríki til viðbótar hafa staðfest að veiran hafi greinst þar. Veiran hefur greinst í nokkrum Evrópuríkjum,  þar á meðal Bretlandi, Finnlandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi.

Tölur um fjölda smitaðra voru uppfærðar 31. janúar. Nafn árinnar Yangtze hefur verið leiðrétt. 

Flug fellt niður 

Ferðatakmarkanir eru nú ekki bundnar við Hubei-hérað. Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Kínverja til þess að fresta fyrirhuguðum utanlandsreisum og stjórnvöld í mörgum ríkjum hafa varað við ferðum til Kína, íslensk stjórnvöld þar á meðan. Ríkisstjóri Hong kong hefur takmarkað mjög ferðir fólks frá meginlandinu yfir landamærin og nokkur flugfélög, þar á meðal breska félagið British airways og indónesíska félagið Lion air, hafa fellt allt flug til og frá meginlandi Kína niður til að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Rússnesk stjórnvöld hafa svo lokað landamærum sínum að Kína til þess að bregðast við útbreiðslunni.

epa08169325 A view of the Wuhan Jinyintan hospital, which specializes in the treatment of severe new coronavirus infected patients transferred from various hospitals in Wuhan City, Hubei Province, China, 26 January 2020 (issued 27 January 2020). China warned that the coronavirus outbreak is accelerating further, deepening fears about an epidemic that has affected more than 2,700 people worldwide and killed at least 80 people in the country.  EPA-EFE/STR CHINA OUT
Jinyintan-sjúkrahúsið í Wuhan. Þangað eru flestir sendir sem greinast með kórónaveirusmit í borginni.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Jinyintan-spítalinn í Wuhan meðhöndlar sjúklinga sem veikst hafa af völdum veirunnar.

Sóttkví á Jólaeyju og fjölskyldum stíað í sundur

Nokkur ríki hafa sent eða hyggjast senda flugvélar til að sækja ríkisborgara sína til Wuhan-borgar. Japan, Ástralía, Bandaríkin og nokkur Evrópuríki. Áströlsk yfirvöld ætla að senda 600 Ástrala í tveggja vikna einangrun á Jólaeyju, um 2000 kílómetra frá meginlandi Ástralíu. Um 200 japanskir ríkisborgarar eru komnir til Tókíó, sumir þeirra sýndu lasleikamerki við komuna. Breska ríkisútvarpið BBC greindi frá því að 200 breskir ríkisborgarar sem dvelja í borginni verði sóttir, við heimkomu verði þeir sendir í tveggja vikna sóttkví, útlit er fyrir að kínversk-breskum pörum og fjölskyldum, þar sem hluti fjölskyldunnar er með breskt vegabréf og hluti með kínverskt verði stíað í sundur því kínversk stjórnvöld vilja ekki leyfa kínverskum ríkisborgurum að yfirgefa Hubei-hérað. 

Lengra áramótafrí

Vikufríi vegna áramótanna í Kína átti að ljúka 30. janúar. Það hefur verið lengt til mánudags. Sums staðar, svo sem í Shanghai, fjölmennustu borg Kína, hefur áramótafríið verið lengt um eina viku. Í Hubei-héraði er ekki gert ráð fyrir fólki til starfa fyrr en þrettánda febrúar.

Glæný veira og enn margt á huldu

epa08168539 A fully protected nurse takes a phone call beside her ambulance in Wuhan, Hubei province, China, 26 January 2020 (issued 27 January 2020). According to media reports, Wuhan is widely considered as the origin point of the coronavirus outbreak. The virus outbreak has so far killed at least 56 people with around 2,000 infected, mostly in China.  EPA-EFE/YUAN ZHENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Hjúkrunarfræðingur í Wuhan.

Hvað er vitað um veiruna sem er glæný og nýskírð; 2019-nCoV? Hún er sjöunda kórónaveiran sem smitast frá dýrum í menn og er talin eiga upptök sín á matarmarkaði í Wuhan. Þar voru seld lifandi dýr, kjúklingar, kanínur, snákar og leðurblökur, svo dæmi séu nefnd.

Ógnar helst öldruðum og veikum

Á vef Landlæknis segir að einkennin líkist helst inflúensusýkingu en veiran geti valdið lungnabólgu. Í samantekt á vef BBC segir að um fjórðungur þeirra sem smitast veikist alvarlega. Fyrstu einkenni séu hiti og þurr hósi, eftir viku fer að bera á öndunarerfiðleikum og sumir þurfa að leggjast inn á spítala. Í alvarlegustu tilvikunum leiðir sjúkdómurinn til dauða. Sjúkdómurinn virðist helst ógna öldruðum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma. Sá yngsti sem hefur greinst er fjórtán ára.

Dánartíðni frekar lág

Í samantekt á vef breska blaðsins Guardian segir að dánartíðni sé talin vera um tvö prósent. Á vef BBC segir að vísindamenn geti ekki sagt nákvæmlega fyrir um hver hún er, bæði vegna þess að tölur um fjölda tilfella eru óáreiðanlegar og veikindin standa lengi, þannig geti veiran átt eftir að draga fleiri úr hópi hinna veiku til dauða. Líklega sé dánartíðni þó lægri en tvö prósent þar sem margir þeirra sem veikjast fá væg einkenni og leita aldrei læknis. Til samanburðar er dánartíðni vegna hefðbundinnar inflúensu um eitt prósent, dánartíðni í Ebóla-faraldrinum var um 50% og dánartíðni í Habl-faraldrinum 2002, sem var líka af völdum kórónaveiru, var um tíu prósent. 

Náin samskipti þurfi til að smita

Veiran smitast á milli manna, það staðfestu kínversk stjórnvöld þann 20. janúar. Á vef Landlæknis segir að ekki sé hægt að fullyrða um smitleiðir eða hversu smitandi sjúkdómurin sé en allt bendi til þess að náin samskipti þurfi til. Á vef BBC segir að líklega berist smit með lofti eða andardrætti, til dæmis þegar fólk talar saman. Talið sé að hver þeirra sem veikist smiti 1,4 til 2,5 aðra. Það þýði að faraldurinn eigi ekki eftir að deyja út af sjálfum sér. Ef ekki er gripið til aðgerða til að stöðva hann getur hann haldið áfram að breiðast út. Eitt af því sem vekur áhyggjur er að smitaðir virðast geta verið einkennalausir í allt að tvær vikur og smitað aðra á meðan, manneskja með veiruna getur því ferðast yfir hálfan hnöttinn einkennalaus. Þetta gerir kínverskum yfirvöldum erfiðara fyrir að hemja útbreiðslu veirunnar. Veiran er að þessu leyti líkari flensu en HABL-kórónaveirunni sem smitaðist bara á milli fólks eftir að það veiktist. Ekki er vitað hversu smitandi sjúkdómurinn er meðal þeirra sem ekki sýna einkenni. 

Allt veltur á kínverskum stjórnvöldum

Í raun er það helst í höndum kínverskra stjórnvalda að stöðva faraldurinn, þau hafa þegar gripið til fordæmalausra aðgerða í þeim tilgangi. Ekki bara sóttkvíin, það eiga líka að rísa ný sjúkrahús í Wuhan á nokkrum dögum. Heilbrigðisstarfsmenn í Wuhan eru í framlínunni. 

Veiran getur stökkbreyst

Sjúklingar fá aðhlynningu en engin sértæk meðferð er til. Þá er ekki til bóluefni við veirunni. Verið að prófa bóluefni og t.d. verið að kanna hvort bóluefnin sem reyndust vel gegn HABL-veirunni virki á þá nýju. Veirur vilja lifa af og eru því alltaf að þróast. Samkvæmt samantekt BBC er því mögulegt að veiran stökkbreytist og verði meira smitandi. 

Eina leiðin til að stöðva faraldurinn er að reyna að koma í veg fyrir að veiran smitist manna á milli. Sjúklingar þurfa að dvelja í einangrun og heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir þeim þarf að klæðast hlífðarfatnaði. Handþvottur og það að fólk bregði klút fyrir vit sér þegar það  hóstar eða hnerrar getur hjálpað til við að hamla útbreiðslu, sömuleiðis það að draga úr ferðalögum og banna fjöldasamkomur. Þeir sem finna fyrir einkennum ættu að forðast fjölmenni. 

Faraldursfræðin óþekkt

Margt er óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Síðustu daga hefur fjöldi tilfella margfaldast, þetta kann að segja meira um aðgerðir yfirvalda í Kína en hversu hratt veiran breiðist út. Heilbrigðisstarfsmenn í Kína hafa með bættum aðferðum náð að greina fleiri tilfelli. Í grein BBC segir að í raun sé lítið vitað um hversu hratt sjúkdómurinn breiðist út en að vísindamenn telji líklegt að tilfellin séu mun fleiri en opinberar tölur segja til um. Talsmaður heilbrigðismálanefndar Kína, segir útlit fyrir að faraldurinn næði ekki hámarki fyrr en eftir um tíu daga.

epa08175074 Passenger and AirAsia cabin crew wearing protective masks arrived at the Kuala Lumpur International Airport 2 (KLIA2) in Sepang, outside Kuala Lumpur, Malaysia, 29 January 2020. Malaysia comfirm three new positive cases of coronavirus, making a total of seven.  EPA-EFE/AHMAD YUSNI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Farþegi á flugvelli í Kúala Lumpúr í Malasíu. Flugfreyjur AirAsia í Malasíu bera grímur. Þrjú tilfelli hafa greinst í landinu.

Veiran komi líklega til Íslands

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna veirunnar. Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir óvissustigi og virkað samhæfingarstöð í varúðarskyni. Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir því að veiran berist hingað og Rauði krossinn, heilbrigðisstarfsfólk og starfsmenn á Keflavíkurflugvelli hafa gert viðbragðsáætlanir. Próf til að greina kórónaveiru er væntanlegt til landsins.

Sjá einnig: Búa sig undir veiruna í Keflavík

Engin tilfelli hafa enn greinst hér og á vef landlæknis segir að tilhlýðilegar sóttvarnarráðstafanir muni væntanlega takmarka frekari útbreiðslu í Evrópu. 

Upplýsingum verður dreift á Keflavíkurflugvelli, þá stendur til að senda ferðamönnum Sms-skilaboð á íslensku, ensku og kínversku um hvert skuli leita vakni grunur um smit.

Smithætta talin hverfandi og í lagi að opna sendingar frá Kína

Yfirvöld vilja beina því til einstaklinga sem telja sig hafa sýkst af veirunni að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum. Smithættu hér er talin hverfandi sem stendur og sóttvarnalæknir segir útilokað að fólk geti smitast af veirunni við það að opna vörusendingar frá Kína. Fólk sem telur sig hafa verið útsett fyrri smiti getur haft samband við sóttvarnalækni í gegnum netfangið [email protected] til að fá nánari leiðbeiningar.