Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hvað er þjóðstjórn?

02.12.2016 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmyndasafn Austurlands - Héraðsskjalasafn Austfirðinga
Eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ákváðu að hefja ekki formlegar stjórnarmyndunarviðræður, bryddaði Katrín upp á þeirri hugmynd að hér yrði mynduð þjóðstjórn. En hvað er þjóðstjórn?

Þjóðstjórn er meirihlutaríkisstjórn allra eða flestra stjórnmálaflokka á Alþingi. Þjóðstjórn hefur einungis einu sinni verið mynduð á Alþingi Íslendinga, á árunum 1939 til 1942. Það var stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, með 44 þingmenn. Kommúnistaflokkur og Bændaflokkur voru ekki með í stjórninni, saman með fimm þingmenn. Síðari heimsstyrjöldin vofði yfir, en hingað til hefur þjóðstjórn verið tengd við kreppuástand eða stríðsástand og var henni ætlað að tryggja frið og stöðugleika í landinu. 

Þrír flokkar í fimm ráðuneytum

Morgunblaðið fjallaði um stofnun þjóðstjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1939. Ráðuneytin, sem þá voru fimm, skiptust á milli Hermanns Jónassonar, sem varð forsætisráðherra Framsóknarflokksins, Ólafs Thors, atvinnumálaráðherra Sjálfstæðisflokks, Jakobs Möller, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokks, Eysteins Jónssonar, viðskiptamálaráðherra Framsóknarflokks, og Stefáns Jóhanns Stefánssonar, félagsmálaráðherra  Alþýðuflokksins.  

Stórmerkur viðburður

Í leiðara blaðsins þann dag sagði: „Hvernig sem á stjórnarmyndun þessa er litið, þá hljóta allir að vera sammála um, að það er stórmerkur viðburður í íslensku stjórnmálalífi, er menn, sem barist hafa í návígi hinnar pólitísku orrahríðar hjer á landi, ganga til samvinnu um stjórn landsins.”

„Verið til ómetanlegs gagns fyrir þjóðina"

Á Vísindavef Háskóla Íslands er vísað í dæmi um ummæli þingmanna í gegn um tíðina þar sem þjóðstjórn kom til umræðu. Jónas Jónsson frá Hriflu, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins á árunum 1934 til 1944, sagði um þjóðstjórnina þegar styrjöldin geysaði í maí 1942: 

„Síðan mynduðu Íslendingar samstjórn allra lýðræðisflokkanna missiri áður en ófriðurinn skall á. Íslendingar urðu í þessu efni á undan öðrum lýðræðisþjóðum um þjóðstjórnarmyndun. Og þrátt fyrir óhjákvæmilega galla, sem jafnan verða á slíku samstarfi, þá mun því aldrei neitað, að hið aukna og friðsamlega samstarf lýðræðisflokkanna í þrjú ár hefur verið til ómetanlegs gagns fyrir þjóðina."

 
„Það er allt á hverfanda hveli í þessu landi"

Þorsteinn Þorsteinsson, alþingismaður Dalamanna og ekki hluti af þjóðstjórninni, sagði sumarið 1941, á meðan þjóðstjórnin var enn við völd: 

„Það er allt á hverfanda hveli á þessu landi. Og úr því að við höfum valið okkur þjóðstjórn, verðum við að treysta því, að hún dugi vel til þess að gera það, sem heppilegt er fyrir þjóðina. En ef þjóðstjórnin treystir sér ekki til að taka ákvarðanir um þau vandamál, sem að steðja, þá verður hún að kalla saman þing sér til aðstoðar, á hvaða tíma, sem það kann að verða."

Þjóðstjórnin „valdabrask fámennra valdaklíka á þingi"

Héðinn Valdimarsson, þá þingmaður utan flokka, sagði um þjóðstjórnina í maí 1942: 
„Það er deginum ljósara, að allt ráðabruggið um þjóðstjórnina var aðeins valdabrask fámennra valdaklíkna á þingi og nafnið eitt tálbeita. Í stað þess að sameina þjóðina hefur stjórnin svæft hana og þó gert sitt til að halda launastéttunum niðri. 

Forsætisráðherra óskaði lausnar í nóvember 1941, en ráðuneytið var endurskipað í sama mánuði, og sat frá nóvember 1941 til maí 1942. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV