Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Hvað er það sem þú vilt gera?“

21.10.2016 - 19:43
Mynd: RÚV / Skjáskot
„Ég mun láta allar þínar fantasíur rætast, sama hverjar þær eru. Ég get látið eins og kærastan þín, látið þér líða vel." Eitthvað á þessa leið hljóma auglýsingarnar sem finna má á hinum ýmsu vefsíðum sem auglýsa fylgdarþjónustu í Reykjavík. Vændiskonurnar, sem flestar eru erlendar og á aldrinum 20 til 25 ára, segjast allar vera á eigin vegum. Þær segja að þær hafi sjálfar valið sér þetta hlutskipti. Lögreglan er ekki sannfærð. 

Auglýsingarnar, sem skipta hundruðum, eru keimlíkar. Konurnar segjast vera ástríðufullar og heillandi, klúryrði koma hvergi við sögu þó myndirnar sem fylgja auglýsingunum séu oft klúrar. Sumar geta þess að hjá þeim sé öryggi og hreinlæti í fyrirrúmi.  Það er auðvelt að nálgast konurnar. Flestar gefa upp íslensk símanúmer. 

„Við höfum rætt við þónokkrar og haft afskipti af þeim, þar sem þær eru að gera sig út.“

Segir Snorri Birgisson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Mynd með færslu
 Mynd:

Konurnar dvelja að jafnaði fimm til tíu daga hér á landi í senn.

„Þær hafa komið hingað, oft frá öðrum Norðurlöndum, þær hafa komið ein eða tvær saman. Það er þá búið að panta íbúðina fyrirfram, búið að ganga frá því þannig að þær vita hvert þær eiga að fara. Í sumum tilfellum er búið að bóka tíma áður, negla niður ákveðna dagskrá áður en þær byrja. Auglýsingin fer af stað, svo bara byrja viðskiptin að fara fram.“

Snorri segir að konurnar samnýti bæði auglýsingarnar og símkort, því geti verið tvær til þrjár konur á bak við hverja auglýsingu. Myndirnar sem birtar eru með auglýsingunum eru oft stolnar og ekki af konunum. 

Munnmök og kynmök fyrir 25 þúsund krónur

Hér má heyra hljóðbrot úr samtali sem íslenskur karlmaður átti við eina kvennanna. 

Mynd: Stock / Stock
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Óþekktur einstaklingur gengur út um dyr.
 Mynd: Shirley B - Freeimages
Kúnni?

Móttökulaus íbúðahótel vinsæl

Snorri segir að konurnar taki oft á móti fimm til átta kúnnum á dag. Færst hefur í aukana að þær geri sig út frá Airbnb-íbúðum eða íbúðahótelum þar sem ekki er mótttaka, viðskiptavinir fá aðgangskóða þegar þeir panta herbergið og þurfa því ekki að hitta nokkurn mann. Konan sem maðurinn ræddi við kvaðst vera í íbúð miðsvæðis. 

Hótelstarfsmenn grunlausir

Hún vildi ekki gefa upp heimilisfangið, sagði manninum að hann gæti hringt aftur, tuttugu mínútum fyrir bókaðan fund, þá myndi hún gefa það upp. Starfsemin er að sögn Snorra tengdari ákveðnum hótelum en öðrum. Spegillinn hafði samband við eiganda eins þeirra, lobbíslauss íbúðahótels, hann sagðist ekki hafa orðið var við neitt undarlegt en að hann vonaði að nágrannarnir létu vita, yrðu þeir einhvers varir. Lögum samkvæmt er ólöglegt að hýsa einstakling sem er þolandi mansals. Snorri segir hótelstarfsmenn oft ekki meðvitaða um hvað eigi sér stað. Það þurfi að fræða þá betur.

Rúmenía, Spánn, Lettland, Litháen

En hvaðan eru þessar ungu konur sem hingað koma? Snorri segir flestar þeirra koma frá Austur-Evrópulöndum. Hann bendir á að hingað komi líka karlmenn frá sömu löndum. 

„Við höfum verið að fá stúlkur hérna líka frá Spáni en mestmegnis hefur þetta verið Austur-Evrópa. Þá erum við að horfa á lönd eins og Rúmeníu. Rúmenía er eitt stærsta upprunaland þolenda mansals. Lettland og Litháen líka.“

Eru einhverjar sem kjósa þetta, til dæmis fram yfir atvinnuleysi heima fyrir? 

„Já, það eru einhverjar sem gera það en það sem við erum að horfa meira í, og okkur finnst landslagið vera þannig að meirihlutinn sé ekki hér af fúsum og frjálsum vilja.“

Lögreglan telur flest málin vera mansalsmál. Snorri bendir á að hingað hafi komið konur frá löndum þar sem vændi er löglegt. Það veki grunsemdir. Hvers vegna ættu þær að velja að koma hingað þegar vændi er löglegt í heimalandi þeirra? Spyr hann. 

„Þeim er sagt hvað þær eiga að segja“

Flestar kvennanna halda því þó statt og stöðugt fram að þær séu hér á eigin vegum og séu ekki fórnarlömb eða hjálparþurfi. 

„Það hefur verið reynslan í þessum heimi, þegar þolendur eru annars vegar, sérstaklega í mansalsmálum, að þeim er sagt að gera ákveðna hluti, þeim er sagt hvað þær eiga að segja við yfirvöld ef þau hafa afskipti, þeim er sagt að þær eigi að greina frá því að þær séu sjálfstæðar. Það sem við þurfum að hafa í huga er að þær eru þolendur og þær eru frelsissviptar þó að þær séu eftir atvikum með greiðslukort eða síma eða annað slíkt. Það sem býr að baki eru hótanir og blekkingar af ýmsu tagi. Við höfum til dæmis heyrt af einstaklingi sem var að gera sig út hér í vændi og greindi frá því við okkur að hún gæti ekki sagt frá þeim aðilum sem væru að gera hana út því ef hún gerði það yrði systir hennar sett í sömu aðstöðu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Búkarest, höfuðborg Rúmeníu.

Þekkja þeirra veiku bletti

Þeir sem gera konurnar út hafa að sögn Snorra á þeim tangarhald þó þeir séu ekki á landinu. Þeir þekkja forsögu þeirra og þeirra veiku bletti og búa svo um hnútana að þær verði háðar þeim. Þeir sem leiti konurnar uppi til að byrja með, leggi áherslu á að finna konur sem einhverra hluta vegna standi höllum fæti. Snorri segir að margar kvennanna geri sér ekki grein fyrir stöðu sinni. 

„Þeir gera sér sumir ekki grein fyrir því að þær séu þolendur af einhverju tagi.“

En líður þeim vel? 

„Nei, það er ekki okkar reynsla að þeim líði vel.“

„Upplifa oft mikið power fyrst“

Mynd með færslu
 Mynd: Stígamót - stigamot.is
Stígamót.

Anna Bentína Hermansen, ráðgjafi hjá Stígamótum, segir að konur sem stundi vændi lýsi því stundum með jákvæðum hætti en að hún hafi aldrei hitt konu sem hafi verið í vændi sem geri það. Mýtan um hamingjusömu hóruna er fölsk að hennar mati en hún segir hana skipta milliliðina og konurnar sjálfar miklu máli. Hún segist oft hafa rætt við konur sem tali um að þeim hafi fundist þetta spennandi í upphafi, en svo hafi glansinn farið af þessu.  

„Fyrst í stað þegar konur byrja að stunda vændi upplifa þær svona mikið power eða vald í gegnum það. Þær velja sér þann sem þær sofa hjá og fá pening fyrir það líka. Afleiðingarnar svo, eftir að þær hætta eða því lengur sem þær stunda það geta verið mjög slæmar. Þær hugsa oft að ekkert hafi verið þess virði, að setja sig í þessa spennu eða þessar aðstæður.“

Hún segir að vændisreynslan minni alltaf á sig. Ákveðin rakspíralykt geti til dæmis vakið upp minningar hjá konum sem hafi verið í vændi. Þá eigi konur oft á hættu að rekast á fyrrum kúnna. Til dæmis út í búð. 

Nokkrar viðurkennt að vera gerðar út

Greint hefur verið frá því í fréttum að lögreglan hér á landi hafi haft afskipti af fjórum einstaklingum í tengslum við stóra evrópska lögregluaðgerð sem sneri að mansali og fíkniefnum. Einstaklingarnir sem um ræddi voru vændiskonur. Nokkrar erlendu farandvændiskvennanna hafa viðurkennt fyrir lögreglu að þær hafi verið sendar hingað. 

„Sendar af einstaklingum sem þær hafa ekki viljað greina frá hverjir eru, við höfum auðvitað haft spurnir af því í gegnum Evrópulögregluna, Europol, að brotahópar, sérstaklega frá Austur-Evrópu hafi verið að nota ungar stúlkur og senda þær til Norðurlandanna.“

Allar stúlkurnar sem lögregla hefur haft afskipti af eru eldri en 18 ára. Lögreglan hefur beðið þær að framvísa vegabréfum og þær hafa orðið við því, vegabréfin hafa í öllum tilfellum verið í gildi og ófölsuð.

Halda litlu eftir af peningunum

Konurnar halda að sögn Snorra litlu eftir af reiðufénu sem kúnnarnir greiða þeim. Lögreglan hefur verið að horfa til þess að rekja slóð peninganna sem konurnar senda úr landi í gegnum peningaflutningastofnanir. Þá hefur hún lagt aukna áherslu á alþjóðlegt samstarf. 

Hönd að hrifsa stafla af evrum
 Mynd: Svilen Milev www.efffective.com - Freeimages

„Aðeins of mikið hvítvín“

Það eru aðallega erlendar konur sem auglýsa sig á fylgdarþjónustusíðum en þess eru dæmi að þar séu auglýsingar frá íslenskum konum. 
Spegillinn ræddi við íslenska konu sem auglýsir fylgdarþjónustu á netinu. Hún segist hafa fengið sér aðeins of mikið hvítvín eitt kvöldið og ákveðið að setja inn auglýsingu. Hugmyndin hafi verið að reyna að höfða til ríkra, erlendra ferðamanna. Þeir hafi þó ekki haft samband. Hún hefur því ekki hitt neinn í gegnum síðuna, enn sem komið er.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Eftirspurnin mest meðal íslenskra karlmanna

Það er hennar tilfinning að eftirspurnin sé fyrst og fremst meðal íslenskra karlmanna. Flestir hringja aðfaranótt laugardags eða sunnudags, þegar hún vaknar eru oft fimm ósvöruð símtöl og nokkur sms sem í stendur: „Viltu ríða?" „Karlmenn virka svona,“ segir hún. „Þeir eru að spá í einhverju núna, ekki á miðvikudaginn í næstu viku.“ Konan segist ekki útiloka að hún láti slag standa, hafi einhver ríkur útlendingur samband, til þess sé leikurinn gerður. Hún segist ekki standa illa fjárhagslega. Hún sé í fullri vinnu og vel stæð. Henni finnist kynlíf einfaldlega gott, viti ekki hvernig hún eigi að nálgast það og vilji ekki stunda það undir áhrifum áfengis.

Þrautin þyngri að eyða auglýsingu

Hún segist hafa reynt að eyða auglýsingunni en það hafi reynst ómögulegt. Spegillinn hefur heyrt að auglýsingunum sé stolið og þær fluttar á milli vefsíðna. Það sé því nær ómögulegt fyrir fólk að eyða auglýsingu sem sett hefur verið inn. 

Hvers vegna þessi aukning núna? 

Miðbær Reykjavíkur
 Mynd: ruv

Svo virðist sem eftirspurn eftir vændi hér á landi hafi aukist verulega og framboðið sömuleiðis. Auglýsingarnar á netinu skipta hundruðum, á einni vændissíðunni eru þær fimmfalt fleiri í dag en þær voru í byrjun árs. Auglýsingarnar endurspegla þó ekki endilega þann fjölda vændiskvenna sem er staddur hér á landi. Konunum hefur þó fjölgað líka, að sögn Snorra. Fyrir nokkrum árum hafi að jafnaði verið 8-12 konur á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma, nú séu þær yfir 20. En hvað veldur þessari aukningu núna? Ferðaþjónustan hefur verið í vexti í mörg ár. Ætti hún ekki að hafa verið samfelld? Snorri segir að hugsanlega sé Ísland einfaldlega komið á kortið almennt og einnig hjá þessum vændis- og mansalsgeira. 

„Það er rosa erfitt að benda á eitthvað eitt og segja að það sé ástæðan, það er mikið fjallað um Ísland í erlendum miðlum, Ísland er vinsæll áfangastaður þannig að sama hvort menn eru að tala um mansal eða vændi þá erum við að taka á móti mörgu góðu núna í góðærinu en við erum líka að sjá skuggahliðar samfélagsins.“

Almennt segist Snorri ekki geta fullyrt um hverjir það séu sem kaupi vændi, eða hvort það séu fyrst og fremst Íslendingar eða erlendir ferðamenn. Þetta sé bara þverskurður samfélagsins. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar setur fyrirvara við það að tengja þessa aukningu einungis erlendum ferðamönnum. Það kunni fleira að koma til, svo sem eftirlit og lagaramminn. Þá segir hún að enn sé mikið af óskráðum íbúðum á skammtímaleigu, það sem einu sinni hét deilihagkerfi sé orðið hálfgert skuggahagkerfi, svona starfsemi þrífist þar. 

Framboð tekur kipp í tengslum við stórviðburði

Snorri segir framboðið gjarnan taka kipp í kringum stóra viðburði, svo sem ráðstefnur. Einhverjir ráðstefnugestir á Arctic Circle fengu til dæmis upplýsingar um hvar mætti nálgast vændi. 

Tengingar við steggjaferðir

Þá segir hann tengingar á milli vændis hér á landi og svokallaðra steggjaferða en nokkuð er um að hingað komi hópar ungra karla í slíkar ferðir. 

„Við höfum fengið upplýsingar um að það hafi verið vinsælt að skipuleggja steggjaferðir hér til Íslands og það hafi sérstaklega verið gert vegna þess að hér hafi verið framboð af vændi, auðvelt að nálgast vændi hér. Það er ein birtingarmyndin sem við erum að sjá.“

Spegillinn heyrði frá nokkrum íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum sem skipuleggja ævintýraferðir fyrir steggjahópa. Forsvarsmenn þeirra sögðust ekki hafa orðið varir við að skjólstæðingar þeirra hefðu áhuga á kynlífskaupum. Þeir kæmu frekar til Íslands til að upplifa eitthvað öðruvísi. 

Áhyggjuefni að vændi dreifist um landið

Mynd með færslu
 Mynd: Carolien Coenen - Flickr
Nokkrar auglýsingar tengjast Akureyri.

Starfsemin er í auknum mæli farin að teygja anga sína út á land. Það er ný þróun að sögn Snorra. 

„Það er ákveðið áhyggjuefni, ef vændi er farið að færast um landið, ekki bara á þeim stað sem er hvað vinsælastur. Þá þurfum við að fara að meta þetta betur og setja þessi mál í forgang. Við höfum svo sem gert það, þessi mál eru í miklum forgangi hjá okkur, við fylgjumst náið með því sem er í gangi.“

Fleiri íslenskar konur selji sig vegna fjárhagsvandræða

Aukningin í framboði á vændi virðist ekki eingöngu bundin við erlendar farandvændiskonur. Anna Bentína segir starfsfólk samtakanna hafa á tilfinningunni að það hafi færst í aukana að konur, búsettar hér á landi, selji sig. Anna segir að áður hafi flestar konur sem til þeirra leituðu verið í neyslu. Nú sé staðan önnur. Margar konur beri við fjárhagslegar ástæður. Nokkrar konur eru á biðlista eftir því að komast í Svanahóp samtakanna, stuðningshóp fyrir konur sem hafa verið í vændi eða eru í vændi og vilja komast út úr því. 

Vill að einblínt verði á kaupendur

Anna Bentína segir að samkvæmt íslenskum lögum sé vændi skilgreint sem kynferðisofbeldi. Það séu kaupendur sem séu meinið, ekki vændiskonurnar. Það þurfi einblína á þá. Þá þurfi að vinna að því að breyta samfélagslegum viðhorfum um að það sé í lagi að kaupa aðgang að líkama kvenna. 

„Að þetta sé atvinna eins og hver önnur. Ég veit ekki um neina atvinnu sem orsakar áfallstreitu í mörg ár á eftir, flashback og allt sem okkar konur eru að kljást við.“

Anna segir að það sé hættulegt að vera í vændi, líkurnar á því að vændiskonur verði fyrir ofbeldi eða deyi fyrir aldur fram séu miklar. 

Mannekla hamlar lögreglunni

Snorri segir að lögreglan horfi fyrst og fremst á þá þriðju aðila sem hagnist á vændinu, ekki kaupendur. Hann segir þó að ekki megi gleyma því að það sé lögbrot að kaupa vændi, það þurfi því að fylgja því eftir þegar lögregla stendur kaupendur að verki. Stundum hafi verið ráðist í átak í því að ná kaupendum. Slík átök séu þó mannaflsfrek og lögreglan glími við manneklu. 

Sænska leiðin umdeild

Sú leið sem farin er hér, það að gera kaupin ólögleg en ekki söluna, er umdeild og hefur verið gagnrýnd á þeim grundvelli að hún þrýsti vændisstarfsemi niður í undirheimana þar sem vændiskonur séu berskjaldaðri. Anna Bentína, segir að þessa gagnrýni þurfi að skoða. Almennt séð sé þó staða vændiskvenna í löndum þar sem vændi hefur verið lögleitt verri og þær frekar beittar ofbeldi en í löndum þar sem sænska leiðin sé farin.

Færri úrræði en áður

Úrræðin fyrir þolendur mansals hér á landi eru færri en þau voru. Árið 2014 var Kristínarhúsi, sem þjónustaði vændiskonur, lokað. Snorri segir að munað hafi um það. Hann segir þó að það standi til bóta. 

„Bjarkarhlíð er að opna, þolendamiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar munu þolendur hafa ákveðið úrræði. Við höfum eflt líka móttöku á upplýsingum. Ef einstaklingur vill óska eftir aðstoð er hægt að hafa samband. Við viljum halda áfram, auka upplýsingagjöf til erlendra aðila og færa yfir á erlend tungumál því það er gríðarlega erfitt fyrir einstakling sem er erlendur að googla hvernig hann á að komast úr aðstæðunum.“