Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hvað er stöðugleikaskattur?

14.04.2015 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/[email protected]/
Stjórnvöld hafa á undanförnum vikum látið kanna lögmæti þess að leggja svokallaðan stöðugleikaskatt á þrotabú föllnu bankanna. Tveggja ára gamall Hæstaréttardómur um auðlegðarskattinn gæti þar skipt miklu máli.

Ekki er ljóst hver munurinn er á þeim útgönguskatti sem rætt hefur verið um að leggja á eignir þrotabúanna, og stöðugleikaskattinum sem forsætisráðherra kynnti til sögunnar á föstudaginn. Már Guðmundsson seðlabankastjóri líkti stöðugleikaskattinum við mengunarskatt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í gær. Eftir því sem fréttastofa kemst næst þýðir þetta að kröfuhafar gætu farið úr landi með eignir sínar gegn því að greiða skatt sem næmi jafnvirði þess sem það kostaði þá að menga þjóðarbúið. Seðlabankastjóri sagði jafnframt að sú fjárhæð sem yrði fengin með slíkri skattlagningu færi tæpast út í hagkerfið, hún færi inn í Seðlabankann, yrði mögulega notuð til að grynnka á skuldum ríkissjóðs, og hyrfi jafnvel að miklu leyti. Tilgangur skattsins yrði því aðeins sá að draga úr neikvæðum áhrifum þess að háar fjárhæðir í eigu kröfuhafa hyrfu úr landi í einum rykk.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að stjórnvöld hafi á undanförnum vikum látið kanna lögmæti þess að skattleggja þrotabúin með þessum hætti Tekist var á um þessi mál fyrir Hæstarétti í hittiðfyrra, þegar eigandi Stálskipa stefndi ríkinu vegna auðlegðarskattsins og taldi hann brjóta gegn eignarréttar- og jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur féllst ekki á það og benti á að auðlegðarskatturinn hefði verið lögleiddur skömmu eftir hrun, þegar við var að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum. Augljóst mætti telja að þeir sem safnað hefðu miklum eignum fyrir hrun hefðu notið hagstæðra skattareglna og af þeim sökum þætti ekki óeðlilegt að við ríkjandi aðstæður yrði skattbyrði þessa hóps aukin nokkuð frá því sem áður hefði verið. Samkvæmt heimildum fréttastofu gæti þessi dómur Hæstaréttar skipt miklu máli við ákvörðun stöðugleikaskattsins.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV