„Hvað ef íþróttamaður héldi að hann væri Guð?“

Mynd: Guðmundur Björn Þorbjörnsson / Guðmundur Björn Þorbjörnsson

„Hvað ef íþróttamaður héldi að hann væri Guð?“

22.10.2017 - 12:20

Höfundar

Ólafur Stefánsson var á sínum tíma einn fremsti handboltamaður heims. Hann er einn allra áhugaverðasti – en um leið einn furðulegasti – karakter íslenskrar íþróttasögu.

Snemma varð ljóst að Ólafur var einn efnilegasti handboltamaður í Evrópu og hélt hann út í atvinnumennsku 1996, þá tuttugu og þriggja ára að aldri. Hann ætlaði í læknisfræði, líkt og faðir hans, en það náði ekki langt – enda kallaði atvinnumennskan. Fósturafi Ólafs var dr. Þórir Kr. Þórðarson, prófessor í Gamla testamentisfræði við Háskóla Íslands. Ólafur varði miklum tíma með Þóri sem barn og hann segir að það hafi mótað hugsunarhátt hans síðar á árum. Þekkingarleitin hvarf ekki og meðfram atvinnumennsku í handbolta nældi hann sér í heimspekigráðu.

Í fyrsta þætti Marksmannshanskanna hans Camus ræði ég við Ólaf Stefánsson um hvers vegna við, fólkið á mölinni, þráum að heyra og sjá þegar íþróttamenn gera eitthvað óvenjulegt, segja eitthvað skrýtið og allt þar á milli. Í þættinum er sjónum einnig beint að innri leit íþróttamannsins, þrá hans eftir árangri og reynt að komast að því hvað hann hræðist.

Geta vangaveltur um tilgang, tíma, rúm og dýpri merkingu alheimsins, og fleira sem maður kann að lesa í heimspekibókum, hjálpað íþróttamanninum á sínum ferli?

„Byrjum aðeins á byrjuninni. Við erum að tala um íþróttir sem slíkar og þá heimspeki, notum þessi hugtök til málamiðlunar,“ segir Ólafur. „Hvernig hjálpar þetta hvort öðru? Það þarf að skilgreina þetta allt. Ef þú ætlar að gera eplaböku frá grunni þá þarftu að búa til alheiminn – og sama á við þegar við erum að tala um þessi hugtök. Þetta er endalaus þráður af hugtökum. Við getum alltaf reynt að einfalda það, en um leið og við einföldum það förum við í leiðinni í burtu frá sannleikanum.“

Ég er varla búinn að taka fyrsta sopann af kaffinu en er strax farinn að átta mig á því að þetta verður langt spjall hjá okkur. Ég fæ ekki svarthvít svör frá Ólafi Stefánssyni, en það er fínt. Óli sér stærri myndina. Íþróttamaðurinn þarf að takast á við ýmsar aðstæður, bæði innan og utan vallar, og það gæti hjálpað honum – að hugsa út fyrir kassann.

Ótti íþróttamannsins

„Hvernig væri það fyrir íþróttamanninn ef hann héldi að hann væri Guð,“ segir Óli. „Segjum að hann sé heimspekilega þenkjandi íþróttamaður. Hann er að leita eitthvað; hvort að Kierkegaard geti eitthvað pumpað í hann í gang eða Nietzsche. Og hann er nógu klikkaður til að láta sér detta það í hug að hann sé Guð.“

Guð, samkvæmt klassískri skilgreiningu er sá sem vantar ekkert, en Óli er á öðru máli. „Guð vantar eitt. Hann vantar Hinn.“

Ég held að Óli sé hér að setja upp einhvers konar allegóríu hérna, eða táknsögu. Með því að líta á sig sem Guð sér íþróttamaðurinn sig einan og saman með öllu í veröldinni. Þannig getur hann búið til andstæðing. Ekki beint Hinn eða djöfulinn, kannski bara einhvern sem faðmar hann. Eini galli Guðs er einsemdin segir Óli, og í þessari einsemd kemur óttinn. Ótti vegna þess að þú ert aðgreindur frá Hinum – og það er ótti íþróttamannsins.

Ímyndaðir óvinir

„Hvaðan kemur þessi ótti,“ spyr Óli. „Hann kemur vegna lausnar vandamálsins hjá Guði. Hvernig tæklar hann einsemd sína? Hvernig býr hann til Hinn? Hvernig býr hann til djöfulinn? Ef Guð veit að hann er djöfullinn, þá er hann náttúrulega ekkert hræddur við hann.“

Þú býrð þér til ímyndaðan óvin, segir Óli. Guð – sem er bæði ég og þú og þess vegna Margrét Lára Viðarsdóttir – býr til djöfulinn og þannig er þessi djöfull hluti af sjálfum okkur. Hann tekur penna, teiknar ógnvænlegt andlit í lófa sér og sýnir mér þessa aðgreiningu. Til þess að verða hræddur við andlitið í lófanum þarf íþróttamaðurinn að slíta sambandið við líkamann.

„Ég læt þessa hendi gleyma því að hún er ég. Þannig að hún heldur að hún sé djöfullinn, svipað og kona þegar hún fæðir barn. Barnið er alltaf hún, en á einhverju tímabili virðist verða eitthvað rof. Um leið og það gerist þá er Hinn orðinn til, eða barnið, en um leið fæðist óttinn um að missa þennan Hinn. Við það að ég sé kominn með einhvern gaur sem að getur faðmað mig, verður til óttinn við að missa þennan sama gaur, sem er djöfullinn. Hið illa er þá ekkert illt, nema að ég ákveði að það sé þannig.“

Þetta hugmyndakerfi getur hjálpað íþróttamanninum, að sögn heimspekingsins sem situr á móti mér. Öll aðgreining frá öðrum sé í raun ímyndun okkar. Við erum öll hluti af einu og hinu sama og með því að vera meðvituð um þessa ímyndun er ekki til neins að vera hræddur við andstæðinginn. Hví að óttast markmanninn þegar hann er í rauninni ég? Hver tapar þegar allir eru að tapa og hvaða máli skiptir sigur þegar allir vinna?

Líf íþróttamanna skoðað frá öðru sjónarhorni

Dóp, heimspeki, Guð, vonbrigði, fagurfræði og furðufuglar – öllu þessu fáum við að kynnast í þættinum Markmannshanskarnir hans Albert Camus, þegar skyggnst er bak við tjöldin í heimi íþróttanna og íþróttamaðurinn og líf hans er skoðað frá öðru sjónarhorni en við gerum venjulega.

Smelltu hér til að hlusta á fyrsta þáttinn í heild

Hvers vegna finnst okkur Ólafur Stefánsson svona áhugaverður? Af hverju trúa íþróttamenn á Guð? Er Eiður Smári listamaður? Af hverju spila hommar ekki fótbolta? Í þáttunum er rætt við fjölda íslenskra íþróttamanna um reynslu sína og upplifun af gleði og sorgarstundum, bæði innan og utan vallar.

Þættirnir eru á dagskrá Rásar 1 á laugardögum kl 10.15.