Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvað á ég að verða þegar ég verð stór?

Mynd: RÚV / RÚV

Hvað á ég að verða þegar ég verð stór?

30.03.2017 - 08:19

Höfundar

Eftir að hafa verið ítrekað hafnað, af hinum ýmsu háskólum, höfðu þær Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Steiney Skúladóttir ekki hugmynd um hvað þær ættu að gera í lífinu. „ Við vissum ekkert hvað okkur langaði að gera og vorum ekki að finna okkur og upplifðum fordóma frá fólki í kringum okkur. Sama hvað við sögðumst ætla að gera þá var ekkert nám nógu gott,“ segir Sigurlaug.

Hvers vegna virtust allir aðrir vera með sitt á hreinu? Hvers vegna er þessi pressa að fara í bóklegt nám frekar en iðnnám? Er listnám bara einn stór brandari? Hvort er betra að fara í nám sem maður hefur engan áhuga á eða að vera ómenntaður? Þær ákváðu að gera þáttaröð og freista þess að svara þessum spurningum, hún heitir Framapot og hefst í kvöld á RÚV.

Mynd: RÚV / RÚV
Steiney og Sigurlaug spjölluðu um Framapot í Lestinni á Rás 1.

„Við erum búnar að vinna að þáttunum í þrjú ár, fengum þessa hugmynd þegar við vorum að vinna saman á veitingastað og vorum í rosalegri lífskrísu,“ segir Sigurlaug. Hún segir að upphaflega hafi staðið til að fræða þær sjálfar.

Útgangspunktur þáttanna er því persónulegur, en upphaflega hugmyndin hefur undið upp á sig á þeim þremur árum sem liðið hafa frá því hún skaut fyrst rótum. „Fyrsti þátturinn er mjög persónulegur. Þar erum við að fara yfir hvaðan við erum að koma,“ segir Steiney, „en í næstu þáttum rannsökum við ákveðnar greinar. Eins og vinsælustu greinarnar í háskólanum, af hverju eru þær vinsælastar? Við skoðuðum líka iðnnám, af hverju fara svo fáir í það á Íslandi en samt vantar alltaf iðnaðarmenn?“

Framapot hefur göngu sína í kvöld kl. 20.05 á RÚV. Í þáttunum kynnast Sigurlaug og Steiney hvaða nám og störf standa ungu fólki til boða og fá nasasjón af ýmiss konar starfsframa.