
Húsnæðisverð hærra hér en á öðrum Norðurlöndum
Frá árinu 2010 hefur húsnæðiskostnaður almennings hækkað um 43 prósent umfram almennt verðlag á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði. Um þetta var meðal annars rætt á sameiginlegum fundi húsnæðisyfirvalda á Norðurlöndum, sem haldinn var á vegum Íbúðalánasjóðs í vikunni.
Finnland sker sig úr, þegar tölur Evrópsku hagstofunnar Eurostat yfir þróun húsnæðisverðs eru skoðaðar. Ef við skoðum markaðsvirði húsnæðis á Norðurlöndunum undanfarin ár sjáum við að verðið hefur hækkað verulega - nema í Finnlandi. Þar hefur húsnæðisverð staðið nokkurn veginn í stað. Hér heima tók verðið mikinn kipp fyrir tæpum tveimur árum, og er nú það hæsta á Norðurlöndunum.
Jarmo segir að stjórnvöld verði að taka virkan þátt í því að auka framboð á húsnæði. „Þið þurfið að gera eins og við í Finnlandi, þar sem náðst hefur samkomulag milli ríkisstjórnar og bæjarstjórna um það hvernig þau geti í sameiningu aukið framboð á húsnæði og byggt nýtt leiguhúsnæði sem er niðurgreitt því það kemur stöðugleika á húsnæðismarkaðinn í heild sinni. Borgar- og sveitarstjórnir útvega byggingarsvæði og byrggingarframkvæmdir hafa aukist til muna. Á Helsinki-svæðinum hefur náðst samkomulag milli ríkisstjórnar og borgarstjórnar um að hraða á húsnæðisuppbyggingu til að uppfylla þarfir íbúanna.“
Þá er hlutfall ungs fólks, á aldrinum 25 til 34 ára, sem enn býr í foreldrahúsum, langhæst á Íslandi, eða fjórtán prósent. Annars staðar á Norðurlöndum er hlutfallið á bilinu fjögur til sjö prósent.