Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Húsnæðisvandinn er heilsuspillandi

30.10.2018 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson
Staða innflytjenda á leigumarkaði er mjög alvarleg og hefur veruleg áhrif á heilsu þeirra og framtíðarmöguleika. Húsaleiga Natalie Scholtz hækkaði um tugi þúsunda á einu ári.

Natalie Scholtz og Johanna Elizabeth Van Schalkwyk hafa búið hér á landi í meira en tvo áratugi. Jóhanna hefur kynnt sér sérstaklega stöðu innflytjenda á leigumarkaði og sagði sögu Natalie á ráðstefnu um húsnæðismál í dag.

Fyrir fimm árum tók Natalie íbúð á leigu sem var í eigu Íbúðalánasjóðs og borgaði 145  þúsund á mánuði. „Svo í febrúar 2017 fæ ég bréf frá Almenna leigufélag sem segir, nú eru þau búin að kaupa eignina og ætli að segja samningnum upp en buðu samning með 180 þúsund til eins árs.“

Þegar samningurinn rann út eftir árið fékk Natalie skilaboð um að hækka ætti leiguna í 220 þúsund á mánuði. Þá óskaði hún eftir því að fá ótímabundinn samning. „Og svarið sem ég fékk var, þeir bjóða ekki ótímabundna samninga en ég mætti fá tveggja ára samning á 245 þúsund.“

Natalie þáði það ekki og borgar nú um 220 þúsund krónur á mánuði vísitölubundið og fær húsaleigubætur. „En þetta er samt mjög erfitt, það má ekkert út af bregða, þá er maður bara með ekki neitt þegar maður er búinn að borga skuldina.“

Sagt var frá nýrri könnun sem ráðgjafafyrirtækið Zenter gerði fyrir Íbúðalánasjóð um húsnæðismarkaðinn hér á landi á þinginu í dag. Þar kom fram að 84 prósent leigjenda töldu líklegt að þeir yrðu áfram á leigumarkaði eftir eitt ár en nær allir töldu óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi. Það á líka við um innflytjendur.

Johanna Elizabeth Van Schalkwyk er varamaður í innflytjendaráði. „Það sem fólk er að glíma við er fordómar, það er búið að koma í ljós að sumir leigusalar langa bara ekkert að leigja til innflytjenda.“

„Húsnæðisvandamál sem innflytjendur eru að glíma við í dag skapa gríðarlega líkamlega og andlega vanlíðan. Það fólk er bara jafnvel að lenda í atvinnumissi út af þessu og það er að lenda í fátæktargildru.“

Húsnæðisvandinn bitni á börnum innflytjenda og hafi áhrif á geðheilsu, skólagöngu, framhaldsnám og svo framvegis. „Með því að veita ekki þessum hópi sérstakan áhuga núna erum við að skapa gríðarleg vandamál fyrir framtíðina fyrir innfæddum og aðfluttum Íslendingum.“
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV