Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Húsnæðisskortur meðal námsmanna

16.08.2016 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aldrei hafa fleiri verið á biðlista eftir íbúð á Stúdentagörðum en nú. Umsækjendur voru um 2.300 og eftir úthlutun eru um 1.160 á biðlista. Frá haustinu 2005 hefur námsmönnum á biðlista eftir stúdentaíbúð fjölgað um rúmlega 700.

Að sögn Rebekku Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Félagsstofnunar stúdenta, má rekja þessa fjölgun til þess ástands sem nú ríkir á leigumarkaði. Skortur er á leiguhúsnæði á verði sem námsmenn ráða við, en smærri íbúðir og herbergi, eru nú flestar í skammtímaleigu til ferðamanna. Gistiheimili í Reykjavík hafa í gegnum árin einnig hýst námsmenn yfir vetrarmánuðina, en fjölgun ferðamanna gerir það að verkum að þeir þurfa nú að leita annað. Þetta kemur einna verst niður á stúdentum af landsbyggðinni og erlendum námsmönnum.  

102 nýjar stúdentaíbúðir verða teknar í notkun í nóvember næstkomandi og mun þá aðeins fækka á biðlistanum. Frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar, en gert er ráð fyrir allt að 400 nýjum stúdentaíbúðum á næstu árum.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV