Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Húsleitir hjá Kaupþingi í Lúxemborg

12.02.2010 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd með færslu
 Mynd:
Ein umfangsmesta aðgerð embættis sérstaks saksóknara hefur farið fram alla vikuna í Lúxemborg. Leitað hefur verið hjá Kaupþingi. Rannsóknin tengist viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og skuldatryggingum.

Rannsóknin er ekki aðeins sú umfangsmesta hjá saksóknara heldur mun einnig vera með þeim stærri í Lúxemborg. Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari fór utan við fimmta mann á sunnudaginn var til undirbúnings með lögreglunni ytra og á þriðjudag var látið til skarar skríða með hjálp 40 þarlendra lögreglumanna. Leitað var á tveimur stöðum í Kaupþingi í Lúxemborg sem núna heitir Haveland og í heimahúsi. Yfirheyrslur standa enn og lýkur í kvöld.

Ólafur Þór segir aðgerðirnar tengjast rannsóknum á viðskiptum með hlutabréf í bankanum og skuldatryggingar. Hann vill ekki gefa upp hve margir eða hverjir hafi verið yfirheyrðir, en þeir séu flestir búsettir í Lúxemborg. Hann segir þetta eina stærstu aðgerð sem embætti Sérstaks saksóknara hefur ráðist í og að yfirvöld í Lúxemborg hafi verið mjög hjálpfús.

Rannsóknin tengist fyrri rannsókn sérstaks saksóknara og viðskiptum sheiksins Al - Thani með hlutabréf í Kaupþingi.