Húsfyllir á fundi um Vestfjarðaveg

09.01.2019 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Húsfyllir var á fundi Vegagerðarinnar á Reykhólum síðdegis í dag um vegagerð um Gufudalssveit. Vegagerðin telur að svokölluð Þ-H leið um Teigsskóg sé vænlegasti kosturinn. Niðurstaða valkostagreiningar fyrir Reykhólahrepp var aftur á móti sú að svokölluð R-leið um Reykhóla og brú yfir Þorskafjörð væri besti kosturinn.

Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, segir að mæting á fundinn hafi verið mjög góð, og að fundurinn hafi verið upplýsandi og góður. Fólk hafi komið víða að á fundinn, til dæmis á milli 20 og 30 manns frá Tálknafirði og Vesturbyggð. „Þetta mál er mjög mikilvægt fyrir okkur í þeim sveitarfélögum.“

Hún segir að sveitarstjórnaryfirvöld í öllum sveitarfélögunum á öllum Vestfjörðum, fyrir utan Reykhólahrepp, séu þeirrar skoðunar að leiðin um Teigsskóg sé vænlegust. Þó megi ekki gera lítið úr því valdi sem sveitarstjórnaryfirvöld hafi í skipulagsmálum. „Við bundum vonir við að framkvæmdir myndu hefjast á þessu ári en síðan Reykhólahreppur fékk skýrslu um hinn valkostinn hefur málið verið stopp.“ Nú sjái þau fram á að framkvæmdir hefjist í fyrsta lagi á næsta ári en ef enn aðrir möguleikar í stöðunni verði skoðaðir óttast Iða að framkvæmdum verði frestað enn frekar. Áður hafi alger samstaða ríkt um Þ-H leiðina en það hafi breyst eftir að sveitarstjórnaryfirvöld í Reykhólahreppi skiptu um skoðun fyrr á árinu.  

Iða segir ekki hægt að una við óbreytt ástand. „Þetta skerðir samkeppnishæfni bæði sveitarfélaga og rekstraraðila og fram undan er mikill vöxtur.“ Núverandi vegur geti ekki borið alla þá þungaflutninga sem þarna þurfi að fara um og því sé mjög brýnt að leysa málið sem allra fyrst.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi