Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hús tíðarandans

Mynd: Hörður Sveinsson / Þjóðleikhúsið

Hús tíðarandans

14.03.2017 - 14:43

Höfundar

Leikritið Húsið eftir Guðmund Steinsson vekur heimspekilegar spurningar, framúrskarandi leikmynd og búningar standa fyrir sínu en predikunartónninn í verkinu eldist illa, að mati gagnrýnenda Menningarinnar.

Guðmundur Steinsson skrifaði Húsið í kringum 1970 en það hefur aldrei verið sett á svið fyrr en nú. Það var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á föstudag í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Verkið fjallar um hjónin Pál og Ingu. Þau eru vel stæðir góðborgarar sem aðhyllast kristin gildi og hafa nýverið keypt sér stæðilegt hús. Þegar þau eru flutt inn reynir hins vegar á hvort gildin sem þau þykjast standa fyrir séu meira í orði en á borði.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - Þjóðleikhúsið

Hlín Agnarsdóttur og Snæbirni Brynjarssyni fannst frískandi að sjá leiksýningu í hefðbundnum stíl, innan um alla afbygginguna sem einkennt hefur margar sýningar í vetur og hrósuðu Benedikt til dæmis fyrir notkun á leiktjaldinu til að afmarka atriði og slá tóninn. „Þetta hefur maður ekki séð á Íslandi í mörg ár,“ segir Hlín. „Þetta er svona „norm core“-leikhús,“ segir Snæbjörn.

Verkið gerist á ritunartímanum og Hlín og Snæbjörn voru afar hrifin af leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar og búningum Filippíu Elísdóttur, sem og leik þeirra Guðjóns Davíðs Karlssonar og Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur í aðalhlutverkinu, og einu af risum verksins sem var kostuleg partísena í nýja húsinu.  

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - Þjóðleikhúsið

Snæbjörn fann hins vegar að hversu boðandi verkið er af hálfu höfundar. „Ég á oft erfitt með predikun í leikhúsi og það á við í þetta sinn,“ segir hann og bætir við að hin trúarlega skírskotun verksins passi illa við tíðarandann í dag. Hlín segir að verkið sé ádeiluverk og beri einkenni síns tíma, en finnst Benedikt takast vel að tengja efni verksins við samtímann í lokasenunni.

Hlín segir Húsið vera augljósan forvera að þeim verkum sem gerðu hann að svo vinsælu leikskáldi, svo sem Sólarferð og Stundarfriði. Snæbjörn segir verkið að mörgu leyti barns síns tíma og ef það væri skrifað í dag yrðu efnistökin öðruvísi. Hlín tók undir. „Mér fannst ekki takast fullkomlega að gera þetta verk gildandi fyrir okkar tíma en það vekur margar spurningar og maður fer að hugsa um ýmislegt.“