Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hús sem fólk elskar að hata

Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink

Hús sem fólk elskar að hata

26.03.2017 - 15:43

Höfundar

Það stóð löngum styr um Ráðhús Reykjavíkur í aðdraganda byggingar þess á 9. áratugnum og eftir að það var tekið í notkun 1994. Deilurnar um ráðhúsið byrjuðu raunar mun fyrr segir Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, en upphaflega var gert ráð fyrir mun stórtækari breytingum á umhverfinu í kringum Reykjavíkurtjörn.

Á sjöunda áratugnum var haldin samkeppni um skipulag við Reykjavíkurtjörn og þar var gert ráð fyrir ráðhúsi. Vinningstillagan var í rauninni mikill viðsnúningur á þeirri lágreistu byggð sem var við Tjörnina þá, og er þar enn, en tillagan kom að mjög litlu leyti til framkvæmda, segir Hildigunnur.

„Það átti hreinlega að byggja stór blokkarhús, punktblokkir, meðfram Tjörninni og fleiri stjórnsýslubyggingar eða stærri stofnana- og skrifstofubyggingar í kring. Búa átti til stórborgarrými í kringum Tjörnina. Þá strax spruttu upp mótmæli og andstaða við þær hugmyndir. Þannig að þegar Sjálfstæðisflokkurinn ákveður á 9. áratugnum að láta til skara skríða að byggja Ráðhúsið við Tjörnina, liggur í grunninn mótspyrna fyrir.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

„Fólk var hrætt við það hvað þetta myndi gera fyrir ásýndina gagnvart Tjörninni. Hvort þessi mikla stóra bygging myndi skora þetta ljúfa götulíf í kringum Tjörnina á hólm. “

Stjórnmálaafstaða fólks hafi einnig haft sín áhrif og uggur læst um sig fyrir frekari framkvæmdum í kringum Tjörnina. „Það var áberandi borgarstjóri við völd, með stórhuga hugmyndir, og það hefur kannski strokið þeim öfugt sem voru neikvæðir í afstöðu sinni fyrir .“

Veðurfarsbundin lýðræðistilraun

„Byggingin talar skýrt um vald, en ég held að ástæðan fyrir því að fólk hafi eftir á að hyggja tekið bygginguna í sátt er að hún hefur bæði mikla lýðræðislega kosti og umhverfislega. Sem voru kannski ekkert endilega læsilegir þegar fólk sá fyrst módelið,“ segir Hildigunnur.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Hildigunnur segir að byggingin sé greinilega lýðræðistilraun. „Á þessum tíma var ljóst að Austurvöllur var grænn, fólk settist í grasið á góðum dögum, og Lækjartorg eins og það lítur út núna hefur aldrei fúnkerað sem borgartorg almennilega. Þannig að mig grunar sterklega að arkitektarnir hafi verið að gera tilraun með lýðræðislegt borgartorg sem að væri miðað við íslenskar veðuraðstæður. Þannig að eins og ég sé það þá er í rauninni búið að draga ráðhústorgið inn undir bygginguna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Hún segir að það hafi sýnt sig að Ráðhúsið nýtist vel borgarbúum; allir eigi möguleika á að leigja þar pláss undir viðburði og byggingin sjálf tryggi að stjórnmálamenn starfi þar fyrir opnum tjöldum.

Af hverju verða sumar byggingar bitbein borgaranna? Ræður pólitík för? Hvað með fagurfræðina sem er svo afstætt? Fjallað var um umdeildar byggingar í Flakki með Lísu Pálsdóttur á Rás 1 í tveimur þáttum. Hægt er að hlusta á þá í heild í Sarpinum, fyrri hluti hér og seinni hluti hér.