Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hús íslenskunnar rís á Melunum

Mynd: arnastofnun.is / arnastofnun.is

Hús íslenskunnar rís á Melunum

02.02.2017 - 10:23

Höfundar

Framkvæmdir við Hús íslenskunnar hefjast á ný síðar á árinu, en þeim var hætt fljótlega eftir að þær hófust árið 2013. Gangi áætlanir eftir verður húsið tilbúið árið 2020.

Framan af var talað um Hús íslenskra fræða. Horfið hefur verið frá því og í staðinn verður það nefnt Hús íslenskunnar. Lögð verður áhersla á að almenningur hafi góðan aðgang að húsinu og geti þar kynnt sér  bókmennta- og sagnaarf þjóðarinnar.

„Það er mikilvægt að hugsa fram í tímann,“ segir Guðrún Nordal. „Við þurfum að hugsa um miðlun á íslenskum fræðum  og íslenskunni, þessum arfi okkar, með nýjum hætti. Við þurfum að hugsa um nýjar kynslóðir og nýja tækni, sem snýr mjög að tungumálinu eins og við vitum. Vonandi getum við spýtt í lófana og unnið gott starf á næstu árum.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin

Guðrún segir að við megum ekki gleyma okkur, nauðsynlegt sé að tengja menningararfinn við nútímann „Húsið gefur okkur mörg ný tækifæri til þess. Þetta er ekki bara hús utan um starfsemi einhverrar stofnunar eða deildar,“ segir Guðrún.  „Þarna verður sýning og miðlunarstarf. Aðalhæðin verður opin og þarna verður gegnumstreymi um húsið. Þetta verður hús íslenskunnar og allra sem hana eiga og við eigum hana ekki ein, við Íslendingar.“

Íslensku handritin eru nú geymd í stofnun Árna Magnússonar í Árnagarði og eru ekki aðgengileg almenningi. „Þetta er eins og að koma til Aþenu og sjá ekki Akrópolis. Þessi menningararfur okkar er ekki einkamál, við gleymum því stundum, við erum að geyma þetta fyrir heiminn.“

Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.