Húrra fyrir vinnukonunni!

Mynd: Hörður Sveinsson / Hörður Sveinsson

Húrra fyrir vinnukonunni!

02.05.2019 - 12:41

Höfundar

„Átakafælni og veikir litir persóna, vannýttir hæfileikar, vannýttur húmor textans – allt er það gegnumgangandi í þessari snyrtilegu sýningu,“ segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi um leiksýninguna Loddarann.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Á frumsýningu í Þjóðleikhúsinu á gamanleiknum Loddaranum eða Tartuffe eftir hinn franska Molière las ég í leikskrá að þrír raddþjálfarar og einn kunnáttumaður í textameðferð hefðu komið til liðs við leikara og leikstjóra í sýningunni. Lofsvert er það framtak og birtist á köflum skemmtilega í alls konar leik með texta, þagnir og hljóð í sýningunni. En dugði hins vegar ekki til þess að ég skildi allt sem fór fram á sviðinu.

Framsögn og flutningur á textanum bundnum í brag í þýðingu Hallgríms Helgasonar var þó ekki það sem hindraði skilning heldur lestur leikstjórans Stefans Metz á verkinu. Þar rekst ýmislegt á hvers annars horn og hann virðist varla hafa getað gert það upp við sig hvort Loddarinn væri gamanleikur eða eitthvað annað. Þannig velur hann ekki ótvíræða gamanleikara í öll hlutverkin þó hver og einn þeirra sem á sviðinu stendur hafi vissulega getu til að gera sér mat úr hlutverki sínu væri hann rétt mótíveraður og hæfileikar hans nýttir.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson

Þessi siðbætandi gamanleikur er vinsælasta verk Molières og hefur verið viðfangsefni evrópskra leikhúsa í meira en þrjár aldir. En þar segir frá hræsni og heimsku; baráttu um peninga og völd meðal efnaðra í ríki Loðvíks fjórtánda. Þar nær hinn gráðugi sértrúarsafnaðargæi Tartuffe valdi yfir peningum og konum auðmannsins Oregons. Þar er sigrast á hræsninni og heimskunni með hlátri. Þá tegund hláturs nam Molière meðal annars hjá ítölskum leikhópum, Commedia dell arte, og úr alþýðuhúmor sagnameistarans Rabelais vísunina í karnevalið, græðgi í mat og kynlíf.

Þýðing Hallgríms er í þeim anda, lipur og fyndin. En hann íslenskar nöfn persónanna og flytur þær þannig úr frönskum veruleika. Oregon verður Orgeir, Tartuffe, Guðreður. Leikstjóri og myndhöfundurinn Sean Mackaoui setja persónurnar hins vegar inni í stofu með risaháum barokkflúruðum veggjum sem gæti verið frá frönsku landsetri byggðu á 17. öld. En máluð er hún frá toppi til táar í glannalegum litum (lýsingu) líkt og í einhverjum óskilgreindum nútíma hafi verið ákveðið að mála yfir fortíðina. Fallegir eru þeir litir og kallast enn fremur á við liti búninga á mjög svo skemmtilegan hátt. Búningarnir, líka frá óræðum nútíma, styðja þó fæstir persónur.

Stefan hefur stytt verkið. Veigamesta  breytingin er sú að hann hefur hent út lokaþættinum þar sem almáttug hönd Loðvíks fjórtánda grípur inn í atburðarásina og sér til þess að allt endi vel eins og í sönnum gamanleik: elskendur fái að eigast og illmenninu sé refsað. En sá háttur tíðkast nú um stundir í sýningum á Tartuffe í flestum evrópskum leikhúsum eins og kemur fram í ákaflega fræðandi grein Guðrúnar Kristinsdóttur Urfalino í leikskrá á vef Þjóðleikhússins. En Stefan hefur ekki breytt hinu forna valdi og eignarrétti föður yfir konunum í fjölskyldunni; það að gera unnusta Maríönnu að lessu  orkar bara ankannalega, óskiljanlega, og fær mann til að hugsa: Væri ekki samkynhneigðinni betur lýst í sambandi Orgeirs og Guðreðurs?

Óskiljanlegt er líka samband þeirra Orgeirs og Guðreðurs. Kemur þar einkum tvennt til: Í fyrsta lagi þá eru persónur þeirra ekki dregnar upp í nógu skýrum eða ýktum myndum. Guðjón Davíð Karlsson sem hefur vaxið með hverri glímu frá því hann kom til Þjóðleikhússins, fær ekki þann lykil að persónunni sem gæti gert hana áhugaverða, hann er bara lint snyrtimenni í fallegum jakkafötum. Sömu sögu er að segja um Hilmi Snæ Guðnason í hlutverki hins dramatíska bófa, Guðreðurs. Hann sem þegar hefur komið sér vel fyrir á heimilinu, náð nokkrum völdum birtist loks sem vesæll hippi í gallabuxum og bol með áprentaðri mynd af Maríu mey. Lítið er gert úr hræsnisfullri guðrækni hans, enn minna úr kynlífsfíkninni eða réttara kannski sagt: Hún er ekki notuð eins oft og textinn býður upp á. Í öðru lagi þá verður ekkert úr þeim atriðum sem þessum tveimur aðalpersónum er teflt saman, þar sem aulinn og illmennið eru afhjúpaðir – og Molière dregur best fram í senunni þar sem Danni upplýsir að Guðreður hafi farið á fjörurnar við Elviru eiginkonu Orgeirs – þau atriði falla beinlínis máttlaus til jarðar. Hinn nýi endir verður líka óskiljanlegur, hann botnar ekki í neinu sem á undan er gengið.

Átakafælni og veikir litir persóna, vannýttir hæfileikar, vannýttur húmor textans – allt er það gegnumgangandi í þessari snyrtilegu sýningu. Vera má þó að einstaka nákvæmir og vel útfærðir farsatilburðir, stöku skemmtileg textameðferð, berrassaður Hilmir Snær, ótrúleg fimi Odds Júlíussonar í hlutverki Danna, þýðing Hallgríms Helgasonar og stjörnuleikur þeirrar einu leikkonu sem tengir okkur við Molière, Kristínar Þóru Haraldsdóttur, í hlutverki vinnukonunnar Dóru nægi til að áhorfendur flykkist í leikhúsið.

En sjálfri finnst mér eins og Þorgeiri Þorgeirssyni, forðum daga, sýningin vera snyrtimennskuglæpur – í landi þar sem hræsni og græðgi eru allsráðandi.