Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hundruð þúsunda í hættu eftir fellibyl

29.04.2019 - 16:03
Erlent · Afríka · Mósambík · Veður
Damaged houses near the area where two houses were crushed by the collapse of a massive, sprawling dumpsite that hit just after midnight when rains poured in Pemba city on the northeastern coast of Mozambique, Monday, April, 29, 2019. Mozambique's government says the death toll from last week's Cyclone Kenneth has jumped to 38 as flooding continues. (AP Photo/Tsvangirayi Mukwazhi)
 Mynd: AP
Þrjátíu og átta hafa fundist látnir eftir að fellibylurinn Kenneth fór yfir norðausturhluta Mósambíkur. Tugþúsundir íbúðarhúsa eru ónýt eða mikið skemmd. Mikil flóð eru í landshlutanum vegna vatnsveðurs. Óveðrið er talið vera hið versta sem komið hefur í Afríku.

Vindhraðinn var yfir sextíu metrar á sekúndu þegar óveðurslægðin náði landi á fimmtudaginn var. Gríðarlegt úrhelli fylgdi fárviðrinu. Samræmingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum áætlar að um sjö hundruð þúsund íbúar norðausturhlutans séu í hættu vegna flóða. Ekkert útlit er fyrir að stytti upp á næstunni.

Vegir eru víða ónýtir vegna vatnsagans tún og akrar eru umflotin og hús eru skemmd eftir fárviðrið. Í borginni Pemba er allt á floti. Einnig er ástandið slæmt í bæjunum Macomia og Quissanga. Þá er óttast um íbúa eyjarinnar Ibo, sem hafa verið sambandslausir dögum saman.

Fjögur hundruð þúsund manns búa í Pemba. Óttast er að helmingur þeirra sé í hættu vegna flóðanna. AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni FAO, Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að útlit sé fyrir að áfram rigni næstu fjóra sólarhringa. Hátt í 35 þúsund íbúðarhús hafa stórskemmst eða eyðilagst. Hjálparstofnanir áætla að 23 þúsund manns séu án húsaskjóls.

Nokkrar vikur eru síðan fellibylurinn Idai fór yfir suðurhluta Mósambíks, þar á meðal borgina Beira, sem er um þúsund kílómetra sunnan við Pemba.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV