Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hundruð segja sig úr þjóðkirkjunni

31.08.2010 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert lát hefur orðið á úrsögnum úr þjóðkirkjunni eftir að meint kynferðisbrot fyrrverandi biskup komust í hámæli á nýjan leik. Síðast var það árið 1996 þá sagði á þriðja þúsund sig úr þjóðkirkjunni, eitt prósent allra þjóðkirkjumanna á þeim tíma.

Það ár steig Sigrún Pálína Ingvarsdóttir fram og fleiri konur og ásökuðu Ólaf Skúlason þáverandi biskup um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi þegar hann gegndi prestsembætti. Úrsagnirnar 1996 voru margfalt fleiri en árin á undan og fóru reyndar aldrei mikið yfir 1000 allt til ársins 2006. Síðan þá hafa úrsagnir verið 1500 til tæplega 2000 á ári.

Heimildir Fréttastofu herma að úrsagnirnar nú séu fleiri en 1996 og að þær hafi aldrei verið svo miklar á svo skömmum tíma.

Þann 11. ágúst var sagt frá í fréttum RÚV að starfsmanni á vegum kirkjunnar hefði verið vikið úr starfi eftir að kvartað var yfir honum vegna kynferðisofbeldis. Þann sama dag birti DV frétt með fyrirsögninni Kirkjan leynir bréfi biskupsdóttur. Síðan þá hefur Guðrún Ebba dóttir Ólafs biskups sagt kirkjuráði frá því að faðir hennar hafi beitt hana kynferðisofbeldi í æsku. Jafnframt hafa nokkrar konur auk Sigrúnar Pálínu sagt frá ofbeldi biskups í sinn garð.

Kirkjan hefur síðustu vikur sætt ásökunum um þöggun gagnvart þessum konum. Hún hefur nú brugðist við og ætlar Kirkjuþing, æðsta vald þjóðkirkjunnar, að meirihluta skipað leikmönnum, að fá óháða nefnd til þess að rannsaka alla starfshætti og viðbrögð kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni um kynferðisbrot. Karl Sigurbjörnsson biskup og fleiri hafa einnig beðið konurnar og önnur fórnarlömb fyrirgefningar. Þá hlýddu fimmtíu prestar þjóðkirkjunnar í gær á sögu fimm kvenna sem ásakað hafa fyrrverandi biskup.

Þessi yfirbót kirkjunnar manna hefur ekki hingað til orðið til þess að draga úr úrsögnum samkvæmt heimildum. Eftir daginn í dag, síðasta daga ágústmánaðar, mun Þjóðskrá taka saman yfirlit um úrsagnir síðustu vikna og niðurstaðna er að vænta undir lok næstu viku.

194.000 manns, 16 ára og eldri voru skráðir í þjóðkirkjuna 1. desember í fyrra. Þjóðkirkjan fær nú um 9.200 krónur í sóknargjald á hvern þjóðkirkjufélaga. Ef 3.000 hafa skráð sig úr þjóðkirkjunni í ágúst verða kirkjusóknir landsins af tæplega 28 milljónum króna á ári.