Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hundruð presta brotið á börnum í Póllandi

15.03.2019 - 05:43
Krepptar hendur halda á krossi og biðja.
 Mynd: Pixabay
Nærri 400 starfsmenn kaþólsku kirkjunnar í Póllandi beittu börn og ungmenni kynferðisofbeldi frá árinu 1990 þar til í fyrra. Þetta kemur fram í innri rannsókn kirkjunnar. Fórnarlömbin voru yfir 600 talsins, þar af nærri 200 yngri en 15 ára gömul.

Deutsche Welle hefur eftir Adam Zak, yfirmanni barna- og ungmennaverndar biskupsdæmisins í Póllandi, að það sem finna má í skýrslunni sé aðeins toppurinn á ísjakanum. Erkibiskupinn Marek Jedraszewski segir kirkjuna verða að standa fast í lappirnar gegn illsku. Eins verði að sýna gerendunum miskunn ef þeir lýsa iðrun og eru tilbúnir að snúa lífi sínu á rétta braut.

Skýrsla kaþólsku kirkjunnar kemst að svipaðri niðurstöðu og rannsókn samtakanna Be Not Afraid sem greint var frá í síðasta mánuði. Sú skýrsla var færð á borð Frans páfa á ráðstefnu Vatíkansins um ofbeldi gegn börnum í febrúar. Be Not Afraid eru samtök sem hafa rannsakað barnaníð og ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar víða um heim. Í rannsókn þeirra í Póllandi var greint frá 85 prestum sem hafa gerst sekir um barnaníð, 88 til viðbótar voru afhjúpaðir af fjölmiðlum og loks voru 95 presta ásakaðir af þolendum ofbeldis. Eins eru 24 erkibiskupar og biskupar nefndir í skýrslu samtakanna sem sagðir eru hafa hylmt yfir ofbeldið.

Ólíkt skýrslu Be Not Afraid er engin nöfn að finna í skýrslu kirkjunnar. Joanna Scheuring-Wielgus, stjórnarandstöðuþingmaður og ein þeirra sem hratt innri rannsókn kirkjunnar af stað, segir skýrsluna vera hráka í andlit fórnarlambanna. Biskupsdæmið geri allt til að verja stofnunina og gerendur, í stað þess að taka málstað fórnarlamba. Á blaðamannafundi við kynningu skýrslunnar í gær lögðu erkibiskupar sérstaka áherslu á að barnaníð væri ekki einskorðað við kaþólsku kirkjuna, heldur væri það oftast innan fjölskyldna.

Ljóstrað hefur verið upp um glæpi starfsmanna kaþólsku kirkjunnar víða um heim undanfarna mánuði. Brotin eru mörg hver verulega gróf, og í flestum tilfellum valdi æðsta stjórn biskupsdæmanna að hylma yfir með brotlegum prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV