Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hundruð milljóna kostar að gera við húsið

16.06.2016 - 22:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Að minnsta kosti 20 starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hafa fundið fyrir óþægindum eða veikindum vegna myglusvepps í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Talið er að viðgerðir á húsinu standi fram eftir næsta ári og kosti hundruð milljóna króna.

Mygla hefur fundist víða í höfuðstöðvum Orkuveitunnar, líkt og greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2. Grunur vaknaði um þetta síðasta haust, vegna mikilla veikinda starfsfólks.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að vitað sé um tuttugu starfsmenn sem telji sig hafa orðið fyrir óþægindum vegna myglusvepps. Þau séu þó mis mikil. Myglan er talin stafa af því að frágangi á útvegg og gluggum hafi verið ábótavant.

Talið er að kostnaður við viðgerðirnar hlaupi á hundruðum milljóna. Orkuveitan borgar brúsann til að byrja með en lögfræðingur fyrirtækisins er að kanna hver ber ábyrgð.

Talið er að viðgerðirnar standi fram eftir næsta ári. Þeim fylgir talsvert rask, en ekki er þó gert ráð fyrir að starfsfólk þurfi að flytja í annað húsnæði á meðan á þeim stendur. 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV