Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hundruð kinda drepast víða um land

09.06.2015 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Bændur standa ráðþrota frammi fyrir óvenjumiklum vanhöldum á fé í vor. Hundruð kinda hafa drepist víða um land, einkum í Borgarfirði, Eyjafirði og á Austurlandi. Dæmi eru um bændur sem hafa misst allt að 40 ær, stóran hluta bústofnsins.

Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í dag að léleg hey væru talin ástæðum fyrir skepnudauðanum.

Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Landsamtaka sauðfjárbænda, segir allt á huldu um veikindin. Dýralæknaverkfallið hafi sett strik í reikninginn en samtökin hafi nú hrundið af stað rannsókn í samvinnu við dýralækna. 

„Við hvetjum til þess að bændur láti vita ef óvenjumargar kindur drepast,“ segir Svavar. „Það á að taka blóðsýni úr veikum ám og senda úr landi í greiningu.“

Svavar segir ekki ljóst hve margar ær hafi drepist, en telur að þær skipti hundruðum. Þær drepast ýmist fyrir eða eftir sauðburð.

„Þær eru slappar og með útvöxt í kjálkabeinunum,“ segir Svavar. „Þetta er óvenjulegur ærdauði, og það er þungt yfir þeim bændum sem hafa misst margar skepnur.“

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV